138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að við förum ekki eftir þeirri dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi því að ég veit ekki betur en að fyrsti liður á dagskránni sé kosning níu þingmanna í rannsóknarnefnd. Svo var ætlunin að tala um frestun á fundum Alþingis og svo ætluðum að fara að ræða það sem við höfum verið að ræða hér.

Hins vegar vil ég taka undir þær tillögur sem fram hafa komið frá hv. þm. Pétri Blöndal um að þeir þingmenn sem eru búnir með sinn ræðutíma fái að tjá sig um þessi ótrúlegu gögn sem við höfum verið að fá í hendurnar.

Ég vil líka taka undir þá tillögu sem fram hefur komið um að fundi verði frestað þar til við erum búin að fá einhverja niðurstöðu í þetta. Þetta var svoddan ótrúleg sjón þegar ég gekk inn í þingsalinn áðan þegar þingfundur byrjaði. Þá sáum við þingmenn standa hérna í öllum hornum með blöð í höndunum að lesa þau í fyrsta skipti. (Gripið fram í.) Ég held að það sé nú ekki venjan þegar við fáum gömul gögn í hendurnar að við stöndum hérna í öllum hornum og séum að (Forseti hringir.) lesa orð fyrir orð ótrúlega tölvupósta sem okkur hafa borist. Það er náttúrlega fáránleg (Forseti hringir.) vinnuaðstaða, frú forseti, sem okkur er boðið upp á, að við þurfum að hlaupa hér um og frétta af því að fleiri tölvupóstar hafi borist sem við ættum annars að kynna okkur í ró og næði en ekki hlaupandi hérna um á göngunum og inni í þingsal.