138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:03]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kem hér enn og aftur upp til þess að benda á þá staðreynd að ég sem þingmaður þjóðarinnar hef ekki náð að kynna mér öll þau gögn sem enn eru að berast hér í hús. Það eru óviðunandi vinnuaðstæður, frú forseti, og ég tel að forseti verði að beita sér fyrir því að þessum fundi verði frestað.

Nú hefur hver stjórnarþingmaðurinn af öðrum í öllu þessu ferli komið margoft upp í þennan stól og fullyrt að öll gögn málsins séu löngu komin fram. Síðast í gær, líklega um sjöleytið, kom hv. varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, hingað og sagði að öll gögn væru komin fram. Nokkrum mínútum síðar kom gagnapakkinn, mörg skjöl frá lögmannsstofunni í Bretlandi, sem menn hafa verið að kynna sér, og enn streyma hingað gögn.

Ég minni á að hæstv. fjármálaráðherra sagði það í þessum ræðustól síðast í gær að menn yrðu að vera menn orða sinna. Nú skora ég á hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna að standa við orð sín (Forseti hringir.) og tryggja að við fáum að kynna okkur öll gögn sem skipta máli í þessu mikla máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)