138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við öll sem erum í stjórnmálum höfum margoft heyrt umræðuna um vinnubrögð á Alþingi. Fólk furðar sig oft á því hvernig hér er unnið. Ég held hins vegar að þetta hljóti að vera hámarkið. Hér, eins og komið hefur fram, eru menn hlaupandi eftir gögnum sem eru víðs vegar um húsin og reyna að lesa sér eitthvað til. Þeir geta ekki einu sinni farið í ræðustól til að tjá sig um það sem þeir eru búnir að skoða á harðahlaupum. Það á að klára málið án þess að búið sé að skoða gögnin, það er það sem lagt er upp með.

Síðan eru það stjórnarliðar sem ákveða það og meta sem svo að hinir og þessir menn sem eru bornir þungum ásökunum af virtum breskum lögmannsstofum og eiga að koma á fund nefnda, finnist ekki. Virðulegi forseti, það er enginn sómi að þessu. Þetta er eitt stærsta mál (Forseti hringir.) Íslandssögunnar og við getum ekki unnið það með þessum hætti, það er algjörlega útilokað.