138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er alltaf sama sáttin og sanngirnin í máli hv. varaformanns fjárlaganefndar þegar hann kemur hér og heiðrar okkur með nærveru sinni í ræðustól Alþingis, þvílíkt og annað eins. Hér kemur hann og níðir skóinn af lögfræðistofunni sem unnið hefur fyrir ríkisstjórnina í marga mánuði, og kennir henni um ýmislegt. Starfsmönnum hennar er ætlað að finna gögn á handahlaupum og þegar umræddur starfsmaður viðurkennir að hann hafi vogað sér að taka sér frí með fjölskyldunni í dag og eigi erfitt með að komast í tölvu til að senda alls konar gögn sem hann kemst í, finnst hv. þm. Birni Vali Gíslasyni það vera eitthvað furðulegt. Ég verð að mótmæla þessu.

Ég verð líka að segja að við getum ekki haldið áfram með þetta mál eins og sakir standa. Þetta er orðið svo fáránlegt að það tekur engu tali. Ríkisstjórninni liggur greinilega á að koma þessu máli í gegn áður en fleiri gögn finnast sem sýna enn fremur fram á máttleysi og getuleysi ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Frú forseti, ég fer fram á að þessum fundi verði frestað tafarlaust.