138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel einungis að það eigi að segja hlutina alveg eins og þeir eru og ég geri ekki athugasemd við það. Hv. þingmaður tók þetta hér upp í gær eftir að hafa lesið bréf Michaels Stubbs. Vitaskuld var það eðlilegt á þeim tímapunkti að stjórnarandstaðan mundi spyrja út í hvað hefði valdið því að lögmaðurinn setti fram þá skoðun sína að formaður íslensku samninganefndarinnar hefði ekki viljað sýna utanríkisráðherra sem hér stendur tiltekna hluti.

Nú finnst mér að þingmenn stjórnarandstöðunnar geti ekki lengur rætt það tiltekna mál öðruvísi en að geta þess að lögmaðurinn sjálfur var og er sammála formanni samninganefndarinnar um að það tiltekna atriði sem kom fram væntanlega í fjórða kafla þeirrar glærusýningar sem við ræddum hér í gær. Hún átti ekki erindi og varðaði ekki þann fund sem ég fór á beint af þessum tiltekna kaffifundi með David Miliband. Ég fór (Gripið fram í.) á þann fund með alveg skýr markmið, strategíu sem við vorum búnir að móta. Og enginn vissi það betur en ég og þá formaður samninganefndarinnar hvers konar vopn ég þurfti á þann fund. Það er alveg hægt að segja frá því að sá fundur var mjög árangursríkur. Ég tel að hann hafi átt verulegan þátt í því (Gripið fram í.) að farin var hin svokallaða Landsbankaleið, sem reyndar Michael Stubbs var mjög áfjáður í að yrði farin, eins og kemur fram í þessum tölvupóstum. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Nei, það sem ég á við er að við skulum ekki rakka niður mannorð embættismanna. Þeir sem bera ábyrgð á verklagi þeirra eru menn eins og ég, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Nú kemur fram skýring á því af hverju lögmaðurinn tók svona til orða í gær. Hann er sammála Svavari Gestssyni um að þetta tiltekna atriði átti ekki erindi í undirbúning utanríkisráðherra fyrir fundinn með David Miliband. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ef þið eruð heiðarleg verðið þið að segja það. Þið eigið ekki, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að rakka niður mannorð góðra manna. (Gripið fram í.)