138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki í þeirri aðstöðu að vera dómbær á hvernig menn setja sín mál fram, hvort heldur þeir heita Mike Stubbs eða Svavar Gestsson, þeir verða bara að standa fyrir sínu sjálfir. Ég hef vandað mig við að vitna ekki til þeirra tölvupósta sem okkur hafa borist núna. Ég vitna til gagna sem hafa verið opinber eins og þeirrar fréttatilkynningar sem ég afhenti hæstv. forsætisráðherra frá Mishcon de Reya. Ég get sagt það eitt að við yfirlestur hennar stangast sú yfirlýsing sem þar er gefin á við þá frásögn sem hæstv. utanríkisráðherra ræddi hér áðan.

Ég ætla ekki að gerast dómari í þessum efnum. Ég hefði miklu fremur kosið að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um hvað hann sjái fyrir sér, ef tillaga hans og hæstv. ríkisstjórnarinnar um að þjóðin undirgangist þær skuldbindingar sem leiða af þessum samningum gengur eftir, hvað við gerum ef hagvaxtarforsendur bresta. Hvar sjá menn ríkisvaldið bera niður? Hvernig ætla menn að ná tökum á þessu? Ef þetta gengur vel, á hvaða grunni mynda þeir sína skoðun á því að hagvöxtur verði hér þannig að allt gangi eftir? Ég sé t.d. ekki í stjórnarstefnunni að hún gefi tilefni til að ætla að hagvöxtur verði með þeim hætti sem hann þarf að vera til þess að við ráðum við þetta viðfangsefni að óbreyttu umfangi, rekstri og starfsemi ríkisins. Það er útilokað að sjá það fyrir sér.

Þetta er í mínum huga stóra myndin og ég hefði gjarnan viljað heyra meira í hæstv. utanríkisráðherra varðandi þann þátt en það gefst þá væntanlega tækifæri til þess síðar við þá umræðu sem hér stendur og virðist ætla að standa til muna lengur en menn ætluðu.