138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég held að sú ósk sem kom fram hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur geti ekki en talist annað sanngjörn og eðlileg. Það er ekki óeðlilegt þó að þingmenn stjórnarandstöðunnar fari fram á það að við séum öll stödd á sama kaflanum í bókinni, að við höfum tækifæri til þess að kynna okkur þau gögn sem fram hafa komi og eru, eftir því sem virðist, enn að berast okkur. Ég sé ekki betur en að hv. formaður utanríkismálanefndar og utanríkisráðherra hæstv. séu að blaða í einhverjum nýjum skjölum sem þeir hafa ekki séð áður, ég geri ráð fyrir því.

Það er fáránlegt að halda þessari umræðu áfram meðan þetta ástand er uppi. Það er hreint út sagt fáránlegt, því miður, hæstv. forseti. Það er mér algjörlega óskiljanlegt hvers vegna stjórn þingsins og ríkisstjórnarflokkarnir ætla að keyra þessa umræðu áfram án þess að gefa þingmönnum svo mikið sem hálftíma, klukkutíma ráðrúm til þess að fara yfir þessi gögn þannig (Forseti hringir.) að menn geti alla vega rætt málið á grundvelli (Forseti hringir.) þess sem fyrir liggur.