138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kom inn á áðan sýnir í rauninni margt, m.a. hvað þetta eru ofsalega óskipuleg og óskynsamleg vinnubrögð. Ef lögmannsstofan sem sendir tölvupósta eftir að hv. fjárlaganefnd biður um það, ef það er eitthvað í þeim gögnum sem á ekki heima þar og á ekki að fara til þingmanna, er eðlilegt að menn setjist yfir það. Það eru engin vinnubrögð að menn biðji í einhverju pati um þessa tölvupósta, dreifi þeim en finnist þeir síðan ekki eiga heima hér, að menn standi hér í ræðustól og húðskammist yfir því að breska lögmannsstofan sendi pósta sem beðið var um og að síðan komi forseti þingsins og segi: Við stoppum þetta.

Þetta eru engin vinnubrögð, það er engin skynsemi í þessu. Við ræðum hér þetta gríðarstóra mál. Getur ekki orðið sátt um að menn vinni það skynsamlega? Er óeining um það? Vilja stjórnarliðar ekki fara þá leið? Vilja menn halda því áfram eins og gert er núna? Virðulegi forseti, ég segi nei og ég (Forseti hringir.) hvet skynsamari stjórnarliða til að draga nú andann djúpt og taka réttar ákvarðanir í þessu máli því að þetta er orðinn algjör farsi.