138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég benti einfaldlega á í ræðu minni áðan var að það voru tekin út einhver gögn sem voru ekki kynnt fyrir hæstv. utanríkisráðherra. Það kom vel í ljós hér í ræðu hans í sumar þar sem hann var rukkaður um þetta. Þá sagðist hann aldrei hafa fengið þessi gögn í hendurnar og kynningu á þessu máli, þ.e. þeim vopnum sem Mishcon de Reya taldi að við hefðum til þess að ná betri niðurstöðu Icesave-samninganna. Margir hér brugðust hart við og héldu jafnvel að hæstv. utanríkisráðherra væri ekki að segja satt. En hæstv. utanríkisráðherra var að segja satt, vegna þess að það kemur í ljós eftir á að þessum pakka var nefnilega kippt út úr þeirri kynningu sem hæstv. utanríkisráðherra átti að fá. Það er mergurinn málsins.

Ég verð að segja að það er mjög furðulegt að það skuli hafa verið gert áður hæstv. utanríkisráðherra fór á einn mikilvægasta fundinn með utanríkisráðherra Bretlands í lok mars á síðasta ári, sem var vendipunkturinn í samningaferli milli Íslands og Bretlands og Hollands í þessu máli. Það er mjög sérkennilegt að einhver hafi tekið ákvörðun um það fyrir hæstv. utanríkisráðherra hvaða vopn hann þurfi að hafa. Ég tel að hæstv. utanríkisráðherra eigi að hafa öll þau vopn sem þarf á að halda í þessu máli, enda hefur það líka komið á daginn að Bretar og Hollendingar hafa allan tímann verið að kúga okkur með beinum og óbeinum hætti. Það er algjörlega óþolandi.

Og það sem er mest óþolandi í þessu er að ríkisstjórnin skuli ekki geta haldið samstöðu í þinginu heldur beini málinu í þann farveg að hér skuli stjórn og stjórnarandstaða rífast alla daga. Það á nefnilega að vera samstaða um málið. Hæstv. fjármálaráðherra heldur því fram að þetta snúist nánast bara um hann. Þetta snýst ekkert um hann, þetta snýst um fjárhagslega framtíð íslenskrar þjóðar. Það er það sem menn verða að fara að skilja. Þetta er nú ekki einu sinni orðið að veruleika enn þá, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) þótt stefnt sé að einhverju einræðiskommúnistaríki.