138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Saga þessa máls hér í þinginu hefur öll verið með stökustu ólíkindum. Ég held að Íslendingar hafi nú allflestir viljað sjá verulegar breytingar eftir ófarirnar haustið 2008, ekki bara á efnahagslífi landsins og hvernig því er stýrt, heldur því hvernig stjórnmálin eru rekin á Íslandi. En í þessu máli höfum við séð allt það versta í íslenskri pólitík, held ég að mér sé óhætt að segja. Það nær svo líklega hámarki hér í kvöld þegar til stendur að þvinga fram atkvæðagreiðslu um þetta mál þótt ljóst sé að öll gögn eru ekki komin fram.

Það var mikið talað um mikilvægi þess að allt væri uppi á borðum í síðustu kosningabaráttu, þeir flokkar sem mynda núverandi ríkisstjórn lögðu mikla áherslu á það. En það voru greinilega bara orðin tóm vegna þess að nú ætla þessir sömu flokkar, þessi ríkisstjórn, sem aftur og aftur hafa verið staðnir að því að leyna gögnum sem hefur þurft að knýja fram, að setja þetta mál í atkvæðagreiðslu, nú þegar gríðarlegt magn nýrra gagna hefur komið sem ekki hefur verið tækifæri til þess að ræða um. En ekki bara það heldur liggur þegar ljóst fyrir að enn hafa ekki öll gögn málsins komið fram og forseti þingsins kom í veg fyrir að þau bærust þinginu. Forseti Alþingis sendi beiðni til þessarar lögmannsstofu fyrri part dagsins í dag um að safna saman og skila grundvallargögnum málsins, gögnum sem þessi sama lögmannsstofa hafði sagt að væri mikilvægt að þingmenn fengju að sjá áður en þeir tækju ákvörðun í málinu. Þegar kom á daginn að í þessu eru ýmsar óþægilegar staðreyndir fyrir ríkisstjórnina sem staðfesta málflutning stjórnarandstöðunnar í þessu máli og reyndar nokkurra stjórnarliða í gegnum tíðina var skrúfað fyrir frekara upplýsingastreymi. Þeir voru vinsamlegast beðnir um að að hætta að senda upplýsingarnar. Hv. formaður fjárlaganefndar sleit fundi á meðan gagnasendingarnar stóðu yfir og bað um að frekari gögn bærust ekki.

Hvað var svo í þessum gögnum? Ja, það er svo sem ekki búið að gefast almennilegt tækifæri til þess að fara yfir þau í heild en á meðal þess sem þar kemur fram eru tiltölulega ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig halda eigi á málstað Íslendinga, hvaða styrkleika við höfum í stöðunni og jafnframt að menn hafi kannski ekki farið alveg rétt að. Þar birtast líka viðbrögð samninganefndar og stjórnvalda við þeim ábendingum. Eitt af því sem stendur upp úr eru ábendingar um hvernig aðgerðir Breta, til að mynda beiting hryðjuverkalaganna, yfirtaka á Heritable bankanum, sem síðar kom í ljós að var ekki gjaldþrota og varð fyrir gríðarlegu tjóni vegna þessa, hefði nýst í samningaviðræðunum. Þetta er eitthvað sem ég og fleiri höfum talað um í meira en ár og var alltaf talinn fráleitur málflutningur af stjórnarliðum. Það er staðfest þarna af þessari lögmannsstofu.

Það er líka staðfest sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á ekki alls fyrir löngu að núverandi ríkisstjórn var algjörlega í sjálfsvald sett hvernig hún semdi í þessu máli, hún væri ekki bundin af einhverjum minnisblöðum, athugasemdum eða samtölum fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. En það hefur verið helsta afsökun þessarar ríkisstjórnar í málinu að hún hafi komið að gerðum hlut, sem þessi tölvupóstssamskipti og þau gögn sem hafa verið að berast frá lögmannsstofunni sýna svo ekki verður um villst að er algjörlega fjarri lagi. Þarna er beygt af þeirri leið sem ráðlögð hafði verið og það er beinlínis tekin ákvörðun um að kasta frá sér vörnum í málinu. Þetta hefur ekki mátt segja án þess að stjórnarliðar færu að barma sér og halda því fram að verið sé að saka þá jafnvel um landráð. Ég ætla ekki að finna neitt sérstakt orð yfir þetta, en þarna er það hins vegar staðfest sem við höfum haldið fram að menn felldu niður varnirnar viljandi í þeirri trú væntanlega að með því yrði komið til móts við okkur og samið um sanngjarna niðurstöðu, sem reyndist síðan ekki vera.

En af hverju fallast menn þá ekki á það, snúa þá við og beita þessum vopnum og svara fyrir sig? Ég held að sé mjög einföld ástæða fyrir því og þessir tölvupóstar varpa að nokkru leyti ljósi á það. Ég held að ástæðan sé eingöngu sú, a.m.k. fyrst og fremst, að hér eru stjórnmálamenn komnir ofan í skotgrafirnar, búnir að segja að þetta sé hin rétta niðurstaða, þetta séu góðir samningar, búnir að leggja sjálfa sig undir (Forseti hringir.) og geta þar af leiðandi ekki bakkað. Það er gríðarlegt tjón fyrir íslenska þjóð ef sjálfsmynd íslenskra stjórnmálamanna á að ganga (Forseti hringir.) framar hagsmunum þjóðarinnar.