138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:00]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún gengur skrefinu lengra og vitnar í bakgrunn samningsins sem hér er verið að véla um. Gerð samningsins er nánast algjörlega ráðið af Bretum og Hollendingum. Það er alveg ljóst að sá samningur sem ætlast er til að Alþingi Íslendinga samþykki gerir Ísland að efnahagslegri nýlendu Breta og Hollendinga. Það er staðreynd sem enginn getur mótmælt og sagan mun því miður staðfesta það mjög ákveðið. Það segir sína sögu að verið er að stöðva upplýsingaflæðið til Alþingis og varna því að hægt sé að taka skynsamlega, réttmæta og sanngjarna afstöðu um niðurstöðu þessa máls.

Á hornsteini Alþingishússins stendur setning úr Jóhannesarguðspjalli: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsan.“ Það er ekki sagt: „Með lögum skal land byggja.“ Það er gengið út í það almenna, einfalda og sterka, brjóstvitið sjálft, sannleikurinn gjörir yður frjálsan.

Þegar Alþingi fær ekki aðgang að sannleikanum með því að stöðva upplýsingaflæði í gegnum tölvur og á annan hátt, er eitthvað mikið að. Þá eru menn á vegferð sem ekki er boðleg, (Forseti hringir.) hvorki sjálfstæðu Íslandi né Íslandi sem efnahagsnýlendu Breta og Hollendinga.