138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er komið að síðustu formlegu ræðu um þetta risavaxna mál sem er líklega eitt það stærsta sem Alþingi hefur þurft að takast á við. Enn er þó eftir atkvæðagreiðslan og enn ber maður þá bjartsýni innra með sér að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafi ekki allir verið svínbeygðir með hótunum til þess að greiða þessum óskapnaði atkvæði sitt.

Það er grímulaust erlend ríki, ekki síst ríki sem tilheyra hinu svokallaða Evrópusambandi, sem ríkisstjórnarflokkarnir, þó sérstaklega annar þeirra, ásælast svo mjög að fá inngöngu í, hafa kúgað og hótað þessu landi, þessari þjóð. Og síðan hafa liðsmenn ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna, yfirfært þær hótanir á sína eigin fylgismenn, flokksmenn, stjórnarliða, til þess að þröngva þessu máli í gegnum Alþingi Íslendinga.

Í dag höfum við orðið vitni að algjörum skrípaleik og þeir stjórnarliðar sem hafa nefnt í ræðustól að stjórnarandstaðan hafi verið að traðka á lýðræðinu með því að tala í þessu máli, ættu nú að líta í eigin barm. Hér er forseti Alþingis búin að skrúfa fyrir upplýsingar til þingmanna með því að banna að sendir séu tölvupóstar hingað til landsins, sem þingmenn hafa þó óskað eftir að fá að sjá. Þetta er algjörlega fáheyrt, frú forseti.

Það er ljóst að það eru engir aðrir en þessi ríkisstjórn, þessi Icesave-ríkisstjórn, sem hér situr og gerir þennan Icesave-samning sem ber ábyrgð á þeim samningi sem hér er verið að ræða. Það bera margir ábyrgð á því sem gerðist á undan því en þessi samningur eins og hann lítur út, verður minnisvarði þessara tveggja flokka um aldur og ævi. Hvernig þessir flokkar eða hvernig ríkisstjórnin réttara sagt, því að ég veit að mörgum þingmönnum stjórnarflokkanna er vorkunn hvað þetta varðar, hefur haldið á þessu máli og hennar meðreiðarsveinar, er til skammar og lýsir algjöru vanhæfi ríkisstjórnarinnar til þess að stýra þessu landi. Þessari ríkisstjórn ber að segja af sér strax.

Það mun vera nauðsynlegt að rannsaka gaumgæfilega allt það ferli sem var í gangi áður en þessi samningur fór hér inn á Alþingi. Það er óþolandi að hafa tortryggni hér á þingi, vantraust í samfélaginu og í raun að hafa staðfestingu á því hér í dag að það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli. Það þarf að komast til botns í því hverjir eru að segja satt og hverjir ósatt. Hvar eru fleiri gögn? Hvaða upplýsingar eru það sem við höfum enn ekki fengið á Alþingi og þá um leið þjóðin? Það þarf allt að upplýsa, frú forseti.

Máli þessu er hvergi lokið þótt umræðan og atkvæðagreiðslan klárist hér því að þjóðin og afkomendur okkar, börnin, munu þurfa að borga af þessu láni, þeim samningi sem þessir tveir flokkar, Samfylkingin og Vinstri grænir, eru að þröngva í gegnum þingið. Afkomendur okkar munu þurfa að borga þessa skuld sem enginn hefur enn þá sannað að okkur beri að greiða, enginn. Málinu er því ekki lokið vegna þess að í tugi ára í viðbót geta Íslendingar framtíðarinnar þurft að borga og standa í skilum fyrir þessa ríkisstjórn.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, málinu er líka hvergi lokið vegna þess að tilurð þessa samnings sem hér á að þvinga í gegn verður að rannsaka. Það verður að rannsaka hvernig haldið var á spilum fyrir hönd Íslands því að það læðist að manni sá grunur, frú forseti, að það kunni að vera æskilegt að kalla menn til ábyrgðar vegna þess.