138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:23]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ítrekað kemur hv. varaformaður fjárlaganefndar hér í nafni sáttar og samstöðu. Hann kemur með innsýn inn í einhvern hugarheim sem ég hef bara engan skilning á. Það er alltaf ákaflega spennandi að verða vitni að einhverjum órum hjá fólki. Það er ekkert sem bendir til þess að verið sé að skuldbinda komandi kynslóðir, fullyrti þingmaðurinn, þvert ofan á það sem hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hefur fullyrt í gegnum allt þetta mál. Hann sagði líka að það væri stjórnarandstöðunni til skammar hvernig við hefðum hagað okkur hérna síðastliðinn sólarhring. Ég vil færa það yfir á stjórnarflokkana og segja að það er stjórnarflokkunum til skammar hvernig haldið hefur verið á þessu máli frá upphafi. Og hv. þingmaður sem segir að hafi ekkert nýtt komið fram síðastliðinn sólarhring — ég vil bara minna á að þetta er sami hv. þingmaðurinn og hringdi inn í útvarpið 18. júlí utan af sjó og sagði: (Forseti hringir.) Það er allt komið fram sem á að koma fram og sem getur komið fram, við þurfum að ljúka þessu máli. Ætlar þingmaðurinn að standa hér og segja að það hafi ekkert nýtt komið fram síðan 18. júlí? (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)