138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú átta ég mig ekki alveg á hvort einhverri spurningu var beint til mín úr þessu ágæta andsvari (Gripið fram í.) hjá hv. þingmanni. En hún leit út fyrir að vera sorgmædd og sagði það reyndar að hún hefði verið sorgmædd þegar hún hlustaði á skítadreifara eins og þann sem hér stendur að hennar mati. Það verður bara að vera hennar skoðun. Þingmenn stjórnarandstöðunnar verða nú sömuleiðis að þola það að rifjað sé upp eitt og annað um þeirra hlut í þessu máli því að það er ekki lausn þessa máls sem er vandamálið, það er málið sjálft. Það er þetta ömurlega Icesave-mál sem aðrir bera ábyrgð á en sá sem hér stendur (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) eða flokksmenn hans, (Gripið fram í.) hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Það þykir þeim örugglega sárt og svíður undan því, eins og heyra má hér í salnum, þegar rifjað er upp hvert hægt er að rekja þetta mál (Gripið fram í.) — inn í innstu iður þeirra flokka sem hér stjórnuðu og komu þessu á koppinn á sínum tíma.