138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur fullyrt í fjölmiðlum að þetta mál sé of flókið fyrir þjóðina til þess að hún geti fengið að greiða atkvæði um það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef verið frekar ósáttur við þau ummæli en það rann upp fyrir mér ljós þegar síðasti ræðumaður talaði að hæstv. fjármálaráðherra hefur komist að þessari niðurstöðu eftir að hafa rætt við eigin flokksmenn vegna þess að þeir skilja ekki málið. Það er algjörlega á hreinu. Og hvað gera menn? Jú, menn grípa til örþrifaráða, saka menn hér um ósannindi og gera þeim upp orð og annað. En ég ætla ekki að eyða ræðu minni í að elta ólar við það.

Það er eitt sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. að eftir að við fengum álitið frá IFS Greiningu hefðu stjórnarandstæðingar kæst vegna þess að IFS Greining tók mið af greiningu Seðlabankans og sagði stöðuna vera grafalvarlega. Ég veit ekki um einn einasta stjórnarandstæðing sem kættist við þá greiningu. Þeir bentu einmitt á það varfærna mat að það eru 10% líkur á því að þjóðin verði gjaldþrota. Það eru alveg skelfilegar líkur þegar um þjóðarbú er að ræða, jafnvel þótt um lítið fyrirtæki væri að ræða. Greiningarfyrirtækið CMA segir að líkurnar séu 25%. Hvað erum við að gera? Í mínum huga erum við að vega að sjálfstæði þjóðarinnar. Við erum að vega að sjálfstæði komandi kynslóða.

Mig langar til þess að rifja upp sögu sem kemur fram í Ólafs sögu Helga í Heimskringlu Snorra Sturlusonar. Þar er sagt frá því er Ólafur konungur sendi Þórarin Nefjólfsson til Íslands til þess að falast eftir ey eða útskeri sem í daglegu tali er nefnd Grímsey. Eins stjórnarliðum núna, fannst sumum á þeim tíma að vel kæmi til greina að fórna að því er virtist lítilvægum hagsmunum fyrir meiri. Þá kom til skjalanna Einar Þveræingur sem hafði það til siðs að segja fátt en hlusta og fylgjast með. Hann var spurður út í þetta álitaefni og hann sagði, með leyfi forseta:

„En um Grímsey er það að ræða, ef þaðan er enginn hlutur fluttur sá er til matfanga er þá má þar fæða her manns. Og ef þar er útlendur her og fari þeir með langskipum þaðan þá ætla ég mörgum kotbændunum muni þykja verða þröngt fyrir dyrum.“

Með öðrum orðum, ef við mundum gefa eftir litla putta af sjálfstæði þjóðarinnar væri einfaldlega hætta á því að við mundum glata því öllu að lokum. Þetta var sagt hér í kringum árið 1020. Vandamálið er því það, og því höfum við kynnst í dag, að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að læra af sögunni. Hún ætlar ekki að læra af mistökum fortíðarinnar. Það er kannski það alvarlegasta sem við horfum upp á hér í dag. Brennt barn forðast alla jafna eldinn en þessi ríkisstjórn sækir í hann þar sem hann er heitastur. Ég trúi því bara ekki að Alþingi Íslendinga ætli sér ekki að læra af hinni bitru reynslu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gaf sinni eigin ríkisstjórn þá einkunn að hér hefði ekkert breyst. Ég tel það vera hluta af þeim vanda að hér hefur nánast verið óstarfhæft Alþingi. Því er illa stjórnað. Það eru ekki skýr skil á milli Alþingis og framkvæmdarvaldsins, enda hefur framkvæmdarvaldið beitt Alþingi ofríki á undanförnu ári. En ég minni Íslendinga (Forseti hringir.) á söguna um Einar Þveræing og bið fólk að hafa hana á bak við eyrað nú yfir áramótin.