138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér sennilega mína síðustu ræðu í þessu ólukkans Icesave-máli. Ég hef reyndar haldið það nokkuð oft núna undanfarna mánuði þannig að það er óhætt að segja í þessu máli að enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Hvernig getum við litið á þetta mál? Hvað er það sem hefur verið gert rangt í málinu? Hvernig stendur á því að hér mætast stálin stinn? Ég held að ástæðan sé sú að gerð hafi verið mikil mistök sem fólust í því að byggja upp vantraust í kringum málið, vantraust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Bornar voru brigður á allar álitsgerðir og annað og það hefur leitt til þess að nú ríkir algjör vantraust og vantrú á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í málinu.

Fljótt á litið gæti það virst tiltölulega sakleysislegt að þannig sé komið en svo er þó ekki vegna þess hve umfang málsins er gríðarlega mikið og vegna þess hversu miklar afleiðingar þetta mál á eftir að hafa í framtíðinni. Málið á eftir að mynda gjá á milli stjórnmálaafla um langa framtíð. En hvernig hefur þetta vantraust myndast? Þetta vantraust hefur myndast, eins og ég sagði áðan, með því að reyna að drepa sérfræðiálit. Þar hafa verið notaðar þrjár aðferðir sem ég sá fyrst í sjónvarpsþáttunum „Já, forsætisráðherra“, þar sem ráðuneytisstjórinn segir við ráðherrann: Ef þú vilt drepa álit byrjarðu á því að efast um forsendur, þú berð brigður á forsendur og segir að þær séu rangar og þess vegna sé niðurstaðan röng. Ef það dugir ekki, er farið í næsta fasa þar sem reynt er að gefa í skyn að álitið sé gert af einhverjum annarlegum hvötum, það sé keypt, það sé myndað af skoðunum sem standast ekki o.s.frv. Ef það dugir ekki er einfaldlega brugðið á það ráð að segja að skýrsluhöfundar eða álitsgjafar séu geðveikir.

Við höfum séð öll þessi þrjú stig í því þegar verið er að reyna að drepa almenn álit og sérfræðiálit í þessu máli. Það hefur, eins og ég sagði áðan, myndað mikið vantraust.

Í öðru lagi held ég að það liggi orðið ljóst fyrir að það var bandvitlaust samið. Það var vegna þess að það var samið af vankunnáttu en líka af oflæti og drambi þar sem ekki var leitað sérfræðiþekkingar. Jafnframt voru aðilar skildir eftir sem hefði átt að hafa með í ráðum. Þá held ég að margir þingmenn hafi gefið sér rangar forsendur þegar þeir ákváðu stuðning sinn við málið, hvort sem það voru efnahagslegar forsendur, lögfræðilegar forsendur, eða einfaldlega út frá því hvaða áhrif þetta hefði til skemmri eða lengri tíma.

Ég held að það sé óhætt að segja að þeir samningar sem þessi ríkisábyrgð byggir á verði minnisvarði um einfeldni og skammsýni þeirra sem gerðu samningana. Ég vona svo sannarlega sem Íslendingur að þær heimsendaspár sem settar hafa verið fram í kringum samningana rætist ekki, en því miður eru líkur á því.