138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er nú að verða hálfgerður farsi. Ef Icesave-málið væri ekki svona grafalvarlegt og hefði ekki svona gríðarlega miklar skuldbindingar fyrir næstu kynslóðir, gæti maður kannski glott út í annað eða brosað. Ég veit ekki hvort maður þorir að minnast á það, en hér var varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem taldi það fjarstæðukennt að börn og barnabörn mundu greiða þennan samning. Hann taldi að eftir 35 ár yrði búið að greiða þetta samkvæmt verstu spám. Ég veit ekki hvað kynslóðin er löng hjá hv. þingmanni en eftir því sem ég get best reiknað eru það í það minnsta börn og barnabörn sem þurfa að borga þetta og jafnvel barnabarnabörn, með lakari heilsugæslu, með lakari þjónustu í leikskólum, með lakari þjónustu í velferðarkerfinu o.s.frv.

Það er lýsandi dæmi fyrir þetta mál frá upphafi hvernig staðið hefur verið að málum í dag. Hér hefur fundum verið frestað ítrekað vegna þess að enginn veit hvað gerist næst. Hér hafa komið tölvupóstar sem eru ný gögn í málinu og það voru sannarlega nýjar upplýsingar sem þar komu fram. Sumt eru óþægilegir hlutir fyrir ríkisstjórnina og samninganefndina og eins er það óþægilegt fyrir okkur hreinlega að vera að hnýsast í slík gögn á þessum tímapunkti. Síðan voru sendingarnar stöðvaðar. Ekki veit ég af hverju og maður spyr sig: Er það vegna þess að næstu tölvupóstar mundu afhjúpa eitthvað sem er alvarlegra en fram var komið? Það er alla vega sú tilfinning sem maður fær.

Svona hefur þetta alla tíð verið og yfirlýsingarnar sem komið hafa frá lögfræðistofunni Mishcon de Reya hafa sannarlega verið nýjar upplýsingar. Þau gögn sem hafa verið að koma fram, bæði síðustu daga og einnig vikurnar fyrir jól og í haust, voru ný gögn sem ævinlega sýndu fram á að málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar var að engu orðinn. Það stangast eitt á við annað hjá blessaðri ríkisstjórninni.

Við getum nefnt yfirlýsingar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Við getum nefnt þessar lagalegu skýrslur. Við getum nefnt greiningu IFS, sem kom með áhættumat og sýndi hvernig það væri reiknað út, hvernig við þyrftum að greiða þetta og hvernig við gætum hugsanlega staðið við það. Við getum nefnt tölvupósta Indriða, sem þá var ráðuneytisstjóri, frá því fyrir kosningar 25. apríl, um að þegar hafi verið búið að semja. Ríkisstjórnin hefur ætíð sagt að það hafi verið búið að semja sl. haust og þeir hafi hreinlega verið að bera fram þessa lausn. Allur sá málatilbúnaður hefur verið hrakinn með þeim gögnum sem komið hafa fram upp á síðkastið.

Þrátt fyrir allt og alveg sama hvaða ný gögn koma hér fram, segir ríkisstjórnin alltaf: Þetta skiptir engu máli. Það virðist ekki nokkru máli skipta hvað borið er fram í þessum sal, það virðist ekkert bíta á þvermóðsku ríkisstjórnarflokkanna sem halda því fram að best sé að keyra málið áfram og klára það strax. Það var sagt í júní, það var sagt í júlí, það var sagt í ágústlok, síðan var það 23. október, síðan var það sagt í lok nóvember og núna er lykilatriði að við klárum þetta fyrir áramót. Hvaða trúverðugleiki fylgir þessari endemisþvælu? Ekki nokkur. Þegar það bætist síðan ofan á að gögn finnast ekki eða að þau hafa verið að koma fram hér síðustu dagana vekur það tortryggni. Það hefur verið sýnt fram það á æ ofan í æ að gögnum hefur verið leynt. Það hefur hreinlega þurft að vita hvaða gögn eru til til þess að hægt sé að kalla eftir þeim. Það eykur því verulega tortryggni, ekki bara hjá okkur í stjórnarandstöðunni, heldur hjá þjóðinni allri í garð ríkisstjórnarinnar og þess málatilbúnaðar sem hún hefur staðið fyrir.

Ég vil ítreka það sem ég sagði í minni næstsíðustu ræðu, því að þetta eru mín síðustu orð í þessari umræðu, að hér þurfi að fara fram rannsókn á því hvað farið hefur fram eftir hrun bankanna í þessu Icesave-máli, hvernig íslensk stjórnvöld hafa á hverjum tíma staðið að því að verja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Ég held að þegar þessum hörmungardegi er lokið verðum við strax að líta (Forseti hringir.) um öxl og skipa hér nýja rannsóknarnefnd sem fari yfir þessi mál, því að það virðist vera ansi margt sem ekki hefur enn verið grafið upp og komið fram í dagsljósið.