138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ber að skilja hæstv. utanríkisráðherra sem svo að hann hafi aldrei fengið þessa kynningu, hvorki 4. kaflann né rest? Ekkert? Þá stangast það algjörlega á við yfirlýsingu Mishcon de Reya. (Utanrrh.: Nei.) Í 3. liðnum stendur að 31. mars hafi verið kynning fyrir hæstv. utanríkisráðherra, að hann hafi verið til staðar í Rib Room á þessu hóteli. (Gripið fram í.) Það eru reyndar taldir upp ýmsir aðrir. Ég skil þessa yfirlýsingu þannig að þarna hafi farið fram kynning væntanlega á öllu nema 4. kaflanum.

En ég spyr aftur: Af hverju dregur Mishcon de Reya það fram í lið 5 að eina afritið af þessari fyrri kynningu, þar sem 4. kaflinn er inni, sem er svo viðkvæmur að hann þolir ekki dagsins ljós, sé í bankahólfi Svavars Gestssonar sendiherra og að tveir embættismenn hafi tekið afrit? Af hverju er þessu komið þarna á framfæri? Ég hélt fyrst að það væri eitthvað verið að ýja að því að ríkisstjórnin væri að saka Mishcon de Reya um að leka einhverjum gögnum en svo skilst mér núna að þetta sé miklu frekar á þá leið að þeir furði sig á því af hverju hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki nokkurn tímann fengið kynningu á þessum 4. kafla. Sú kynning fór bara fram á einhverjum hlaupum í gær, eins og ég skildi orðræðuna hér í gær.

Ég skil það ekki, virðulegur forseti, ef þetta er staðan, að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki fengið kynningu á gagni sem er svona mikilvægt að það er í bankahólfi heima hjá sendiherra. Svo er því reyndar komið á framfæri að tveir embættismenn hafi líka tekið afrit. (Forseti hringir.) Hvað er hér á ferðinni? Það væri gott ef hæstv. utanríkisráðherra gæti reynt að skýra þetta fyrir okkur.