138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Icesave-málið hefur verið ítarlega rætt á Alþingi og fengið vandaða málsmeðferð. Fyrirliggjandi frumvarp að ríkisábyrgð og lánasamningar hafa að geyma lagalega og efnislega fyrirvara sem að mínum dómi lágmarka hættuna á því að Íslendingar fái ekki staðið undir skuldbindingu sinni vegna Icesave-reikninganna. Þeir fyrirvarar tryggja að afborganir höfuðstóls þurfa aldrei að fara yfir ákveðið hlutfall af vexti þjóðarframleiðslu. Þannig er tryggt að afborganir muni aldrei sliga þjóðarbúið. Auk þess er tryggt að breytist forsendur Íslendinga til þess að standa undir skuldbindingum vegna Icesave-reikninganna mjög til hins verra mun samþætting endurskoðunarákvæðis og Brussel-viðmiða leiða til þess að ekki verður gengið nærri greiðslugetu þjóðarbúsins. Þar höfum við bakstuðning Evrópusambandsins til tryggingar á sanngirni í samskiptum við Breta og Hollendinga.

Þá er rétt að hafa í huga að vextir lánsins eru einhverjir þeir lægstu langtímavextir sem veittir hafa verið í Evrópu í sögulegu samhengi. Auk þess getum við greitt lánið upp og endurfjármagnað það hvenær sem er bjóðist Íslendingum betri lánakjör með öðrum hætti. Við höldum í frumvarpinu til haga lagalegri óvissu um túlkun innstæðutilskipunar ESB. Við höldum því fram að hún eigi ekki við þegar um kerfishrun er að ræða og að ríkinu beri heldur ekki ótvíræð skylda við slíkar aðstæður til að hlaupa mundir bagga með Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Enda þótt Icesave-skuldbindingin sé hvorki okkar bráðasti skuldavandi né sá sem íþyngir okkur mest hefur samningaþófið um Icesave staðið í rúmt ár. Það er mitt mat að ekki verði lengra komist í samningum. 2. umr. um þetta mál lauk með því að samkomulag tókst um að tiltekin atriði yrðu skoðuð nánar af hálfu fjárlaganefndar. Þeirri skoðun lauk fyrir jólin og er greinargott yfirlit yfir þá athugun að finna í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans.

Ég vil stuttlega draga fram markverð atriði í þeirri umfjöllun.

Í fyrsta lagi staðfestu Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson prófessor að frumvarp fjármálaráðherra samrýmist stjórnarskránni.

Í öðru lagi voru tvær breskar lögmannsstofur fengnar til að gefa álit, m.a. á texta samninganna og áhættu af því að fella þá. Þegar um viðamikla, sérstaka og flókna lánasamninga er að ræða er auðvitað alltaf hægt að benda á atriði sem eru óvenjuleg og hefði mátt orða öðruvísi. En hætt er við að þeir sem sökkvi sér niður í lestur á lögfræðiálitum sjái ekki skóginn fyrir trjánum. Það hefði einnig orðið til þess að greiða fyrir málum ef lögfræðistofan Mishcon de Reya hefði í 86 síðna áliti sínu, sem barst fyrir jólin, látið vita af gögnum sem hún vildi koma til Alþingis þar sem fjárlaganefnd kallaði eftir því sem skipti máli vegna Icesave-málsins. Að því er séð verður eru gögnin sem hún leggur nú fram og ollu uppnámi stjórnarandstöðunnar úr ýmsum áttum og sum hafa meira að segja þegar birst á island.is. Ég hafna því afdráttarlaust að vísvitandi sé verið að halda gögnum frá Alþingi eins og ítrekað hefur verið haldið fram.

Þegar ég tók við sem forsætisráðherra í febrúar 2009 erfði ríkisstjórnin þetta mál óleyst. Hluti af þeirri arfleifð var samningsdrög sem orðið höfðu til í samskiptum ríkja mánuðina þar á undan. Þar var sem sagt tiltekin staða uppi í viðræðunum sem viðsemjendur okkar hafa ekki hvikað frá að neinu verulegu leyti. Það sem hefur þó einkum áunnist er lækkun vaxta úr 6,7% í 5,55%, lenging lánstíma úr 10 í 15 ár, og lengur ef þörf krefur, lengra afborgunarleysistímabil, úr þremur í sjö ár, svokallað Ragnars H. Halls-ákvæði sem getur falið í sér verulegan sparnað fyrir íslenska ríkið verði aukinn forgangur íslenska tryggingarsjóðsins viðurkenndur fyrir dómi, upphafsdagur vaxta 1. janúar 2009 í stað haustsins 2008, þegar Landsbankinn féll og innstæður voru greiddar út, og loks ákvæði um þak á árlegar greiðslur.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst framganga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem bera ábyrgð á einkavæðingu bankanna og hvernig að henni var staðið, sem í raun er upphaf þess vanda sem Icesave hefur steypt þjóðinni í, hafa verið æ torskildari eftir því sem lengra hefur liðið á Icesave-þrætuna á þingi. Í sumar greiddu flestir stjórnarandstæðingar atkvæði gegn Icesave-frumvarpinu sem varð að lögum, en nú vilja a.m.k. sumir þeirra efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið yrði á milli fyrirvaranna frá í sumar og þeirra fyrirvara sem eru í endurskoðuðu frumvarpi sem hér er að koma til atkvæðagreiðslu. Það sem var ekki nógu gott í sumar er þá orðið allt í einu fullgott fyrir þjóðina. Það er erfitt, virðulegi forseti, að botna í þessum málflutningi.

Það er fleira sem er torskilið í framgöngu stjórnarandstæðinga. Ég vek sérstaka athygli á umfjöllun í lögfræðiálitum um áhættuna af því að fella samningana. Hér er fyrst og fremst um pólitískt mat að ræða. Þar verða menn m.a. að meta líkurnar á að við högnumst á því að taka þann pólitíska og lagalega slag sem fylgir því að hafna samningunum.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður utanríkismálanefndar, var ekki í vafa um hvað gera skyldi í desember 2008. Í framsögu fyrir nefndaráliti mælti hann með því að hin pólitíska samningaleið yrði farin vegna þess að dómstólaleiðin, hvort sem væri fyrir íslenskum eða erlendum dómstólum, gæti leitt okkur út í ófæru. Ef menn ætla að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir að tapa því máli ef á mundi reyna, sagði hv. þingmaður fyrir rúmu ári. Hann var þá sem ábyrgur stjórnarliði ekki tilbúinn til að tapa máli sem gæti endað með því að við þyrftum að borga allar innstæður erlendra aðila á Icesave-reikningum en ekki aðeins lágmarkstryggingu. Í stað þess að taka ábyrgð á 700 milljarða kr. láni, sem að stórum hluta greiddist af endurheimtum á útlánum Landsbankans erlendis, gætum við orðið dæmd til þess að greiða helmingi hærri upphæð. Slíka áhættu var hv. þingmaður ekki reiðubúinn að taka enda ábyrgur fyrir stjórn landsins á þeim tíma.

Nú í stjórnarandstöðu er komið annað hljóð í strokkinn. Hv. þingmaður hefur heldur betur snúið við blaðinu og virðist nú reiðubúinn að taka áhættuna, tilbúinn að tapa máli sem Bretar og Hollendingar mundu höfða gegn Íslandi ef Alþingi hafnaði gerðum samningum. Einhvern tímann hefði Sjálfstæðisflokkurinn axlað ábyrgð sína í milliríkjadeilu af þessu tagi, gengist við sögu sinni og stuðlað að farsælum lyktum málsins eins og burðarflokki í íslenskum stjórnmálum sæmir að gera. En það virðist liðin tíð.

Í þessu samhengi má einnig benda á mjög athyglisverða kafla í áliti Mishcon de Reya um ábyrgð ríkja samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Þar kemur skýrt fram hversu miklum vafa það er undirorpið að ríki geti fríað sig ábyrgð með því að vísa til kerfishruns. Ég spyr: Er það líklegt til að hljóta skilning fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum aðilum að hafna því að axla ábyrgð með lánasamningum sem eru þannig úr garði gerðir að þeir gera Íslandi kleift að standa við bakið á tryggingarsjóðnum með lánskjörum sem eru óvenjuhagstæð og þannig úr garði gerð að endurgreiðslur fari aldrei yfir tiltekið hlutfall af hagvexti?

IFS Greining hefur fundið út að það sé 10% hætta á greiðsluþroti Íslands í þeim erfiðleikum sem við er að etja. Ég spyr: Hvers vegna hefur ekki verið spurt að því hverjar séu líkurnar á greiðslufalli Íslands verði Icesave-frumvarpinu hafnað á Alþingi? Mér er nær að halda að þá muni líkurnar margfaldast. Viðsemjendur okkar, alþjóðlegar fjármálastofnanir og matsfyrirtæki mundu nánast örugglega líta þannig á að þá þegar væri um greiðslufall að ræða og meðhöndla Íslendinga í samræmi við það.

Það er sem sagt mikið hættuspil að hafna Icesave-frumvarpinu. Það er sömuleiðis ekki kostur að draga samþykkt þess og fresta málinu enn um vikur eða mánuði. Slíkt er einnig hættuspil. Líklegt má telja miðað við fyrri reynslu að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mundi frestast um óákveðinn tíma, þar með mundi full afgreiðsla lána frá sjóðnum tefjast og hið sama mundi sennilega einnig gilda um lánveitingar Norðurlanda. Afleiðingin yrði sú að ekki yrði hægt að styrkja gjaldeyrisforðann, sem er nauðsynleg forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Slík töf mundi einnig draga úr tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda bæði innan lands og utan og lánshæfismat ríkissjóðs mundi að öllum líkindum lækka.

Eins og allir vita verður greiðslubyrði ríkissjóðs þung næstu ár og má þar ekkert út af bera. Við eigum mikið undir því að geta endurfjármagnað stór lán ríkisins, sveitarfélaga og orkufyrirtækja sem eru á gjalddaga á næstu árum. Hætta er á að endurfjármögnunin verði erfiðari og dýrari, einkum með tilliti til þess að án góðs gjaldeyrisforða verður vaxtaálag ríkissjóðs hærra en ella. Minnkandi trúverðugleiki og tafir á afnámi gjaldeyrishafta munu auka þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar sem aftur leiðir til vaxandi verðbólgu og veldur því að Seðlabankinn hefur minna svigrúm til vaxtalækkana og gæti jafnvel þurft að hækka vexti sem lækkað hafa úr 18% í 10% á árinu. Vextir hafa ekki verið lægri í fjögur ár. Hætta er einnig á því að skuldatryggingarálag ríkisins, sem lækkað hefur um helming síðan í sumar, muni rjúka upp á ný.

Það er þessi mynd sem menn þurfa að hafa fyrir augum. Ég vil ekki taka áhættu af því að hún verði að veruleika. Í sama streng hafa Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands tekið af augljósum ástæðum enda telja þau nauðsynlegt fyrir framhaldið að Icesave verði afgreitt. Þetta eru allt samverkandi þættir sem torvelda endurreisn atvinnulífs og viðnám gegn kjararýrnun og atvinnuleysi. Endurreisn atvinnulífsins snýst að stórum hluta um það að endurskipuleggja efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja sem hafa skaddast af völdum fjármálakreppunnar og falls krónunnar. Gengi, vextir og verðbólga ráða þar úrslitum og við hljótum að haga málum þannig að þróun þessara mikilvægu þátta í afkomu fyrirtækja og heimila verði sem hagstæðust. Forsenda endurreisnar og meginmarkmið efnahagsáætlunar okkar er að endurheimta traust á efnahagslífið og gjaldmiðil þjóðarinnar. Nauðsynlegt er því að draga úr allri óvissu til þess að hægt sé að ljúka endurreisn fjármálakerfisins og bæta efnahag heimila og fyrirtækja, þar með talið óvissunni um afdrif Icesave-frumvarpsins og óvissunni um vilja Íslendinga til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar.

Af framansögðu er ljóst að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast reiðubúnir til að hætta miklu til þess að Icesave-skuldbindingin nái ekki fram að ganga. Samt er Icesave-skuldbindingin einungis þriðja veigamesta ástæðan fyrir skuldaaukningu ríkisins í kjölfar gengishruns og falls bankanna. Hinar tvær eru stærri í sniðum og þungann af þeim þurfum við að bera nú þegar á næstu árum. Það er þekkt fyrirbæri að fall fjármálakerfisins framkallar ríkissjóðshalla sem hjá okkur er áætlaður uppsafnaður á þrem til fjórum árum 30–40% af landsframleiðslu. Næststærsta áfallið sem við verðum að bera er kostnaðurinn vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans í bankahruninu en hann er talinn verða um 20% af landsframleiðslu. Það er sláandi að á næsta ári munu vextir og verðbætur af þeirri skuld nema sambærilegri upphæð og hækkaðar skattálögur nú á einstaklinga. Það hafa ekki orðið langar umræður um þetta atriði á Alþingi. Icesave-skuldin er talin munu kosta okkur 10–15% af landsframleiðslu miðað við 88% endurheimtur af eignum Landsbankans. Það er nógu slæmt en þó allt að helmingi minni kostnaður en sá sem hlýst af fyrirhyggjuleysi Seðlabankans í bankahruninu.

Glíman við ríkisfjármálin verður erfið næstu ár. Það er m.a. vegna hennar sem nauðsynlegt er að afgreiða Icesave-málið svo við getum einbeitt okkur að því að bæta lánshæfismat ríkisins, tryggja hagstæða endurfjármögnun lána ríkis, sveitarfélaga og orkufyrirtækja, sjá til þess að gengið styrkist, kjörin batni og atvinna aukist, gjaldeyrishöft verði afnumin og skuldastaða heimila verði viðráðanleg. Það er af þessum ástæðum sem við þurfum að ljúka afgreiðslu Icesave á þessu ári. Það er vegna brýnna hagsmuna þjóðarinnar á næstu árum.