138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:23]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Senn göngum við til atkvæðagreiðslu um hið dapurlega Icesave-mál. Þetta mál varðar gríðarlega þjóðarhagsmuni. Þetta er væntanlega eitt stærsta mál sem við höfum tekið til atkvæðagreiðslu á Alþingi í sögu þingsins. Það felur í sér skuldbindingar upp á hundruð milljarða sem e.t.v. munu fylgja, ekki bara þeirri kynslóð sem nú býr í landinu, heldur líka framtíðarkynslóðum þessa lands. Það segir sína sögu um fjárhagslegt umfang þeirra skuldbindinga sem við viljum hér, eða öllu heldur ríkisstjórnin leggur til að við veitum ábyrgð fyrir, að vextirnir einir geta kostað okkur 100 millj. kr. á dag. Samþykkt Icesave-frumvarpsins sem í engu tekur tillit til íslenskra hagsmuna, en í öllum meginatriðum krafna viðsemjenda okkar, felur þess vegna í sér aðför að efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Með þessu frumvarpi vill ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, gera skuldir einkabanka að skuldum almennings þessa lands. Það vill ríkisstjórnin gera án dóms og laga. Fyrir slíkri ákvörðun hlýtur að þurfa afar skýra réttlætingu, rök sem standast skoðun til langs tíma. Réttlæting fyrir þeim samningi sem hér er óskað ríkisábyrgðar á hefur ekki verið lögð fyrir þingið. Er til staðar lagaleg skuldbinding fyrir okkur Íslendinga til að takast á herðar þessar miklu kröfur? Er hún til staðar? Ég heyri það ekki í þessum þingsal. Ég hef engan þingmann heyrt halda því hér fram að á grundvelli lagalegrar skuldbindingar þurfum við að taka á okkur þessar byrðar. Reyndar er það þannig að ríkisstjórnin sjálf segir í frumvarpinu að hún mótmæli því, og nú síðast mótmælir hæstv. forsætisráðherra því að skuldbindingin byggi á lagalegum rökum. Hins vegar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar oftlega komið hingað upp og bent á að viðsemjendur okkar séu þeirrar skoðunar og að ýmsir lögfræðingar í útlöndum séu þeirrar skoðunar að við höfum lagalega skuldbindingu til þess að taka þetta á okkur. En enginn í þessum þingsal er þeirrar skoðunar. Það er skýrt að réttlæting um að færa þessar byrðar yfir á íslenskan almenning byggir ekki á lagalegri skuldbindingu.

Kann að vera að þessa ákvörðun megi réttlæta með einhverri siðferðilegri skuldbindingu, eins og sumir þingmenn stjórnarflokkanna halda hér gjarnan fram? Kann að vera að við Íslendingar höfum siðferðilega skuldbindingu til að taka á okkur ríkisábyrgð vegna fjárhæðar sem nemur hálfri þjóðarframleiðslu? Að sjálfsögðu ekki. Á engu þjóðþingi mundu menn halda slíkum rökum fram. Okkar siðferðilega skuldbinding er gagnvart þeim sem búa í þessu landi og munu gera um ókomna tíð. Þar liggur okkar siðferðilega skuldbinding í þessu máli, að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Skemmst er að minnast þess að fyrrverandi utanríkisráðherra sendi þinginu skýrslu þar sem hún tók fram að ekkert í verkum fyrri ríkisstjórnar mætti túlka svo að af því leiddi skuldbindingu fyrir Ísland eða ríkisstjórnina sem nú er við störf til þess að fallast á kröfur viðmælenda okkar. Það er þá líka skýrt. Hingað kemur upp á eftir hæstv. fjármálaráðherra og hann mun án vafa halda því fram að fyrri ríkisstjórn hafi bundið okkur Íslendinga til að takast á herðar þessar miklu kröfur. Það stenst enga skoðun. Fyrir því höfum við líka lögfræðiálit.

Þrátt fyrir að hafa ekki lagalegar skuldbindingar til þess og ekki siðferðilegar og að ekkert hafi gerst á fyrri stigum þessa máls sem knýi okkur til þessarar niðurstöðu kemur að spurningunni: Kann að vera að við höfum engu að síður pólitíska hagsmuni af því eða að í heildarhagsmunamati þjóðarinnar sé augljóst að við þurfum að takast á herðar þessa skuldbindingu? Mín afstaða til þess er algerlega skýr, við höfum enga pólitíska hagsmuni af því að sæta afarkostum annarra þjóða, sitja undir hótunum og þvingunum eins og ríkisstjórnin hefur látið fara með okkur í þessu máli.

Allt er það rétt sem hæstv. forsætisráðherra tók fram rétt í þessu. Ég var þeirrar skoðunar að við ættum að leita lausnar á þessu máli, að við hefðum hagsmuni af því að láta reyna á samkomulag við þá sem beindu að okkur kröfum í þessu máli. Heildarhagsmunamat á síðasta ári leiddi til þeirrar niðurstöðu og þannig studdu stjórnarflokkarnir á þeim tíma umboð til ríkisstjórnarinnar til að leiða málið til lykta. En staðreynd málsins er sú að við höfum fyrir löngu boðið miklu meira en hægt er að ætlast til af íslensku þjóðinni til að leysa þetta ógæfumál sem byggir á gallaðri löggjöf frá Evrópusambandinu. Með því að leita samninga, með því að vera talsmaður þess að við leiðum fram pólitíska lausn í málinu er maður ekki um leið talsmaður þess að við föllumst á allar kröfur og alla þá þvingunarskilmála sem viðsemjendur okkar hafa hótað okkur þó að ríkisstjórnin sé þeirrar skoðunar. Það dugar ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að koma hingað og gera mig að talsmanni slíkrar niðurstöðu í þessu máli þó að ég hafi talað þannig á sínum tíma að það væri réttara að leita lausnar. Það stenst enga skoðun að koma hingað upp með slíkan málflutning.

Til að bæta gráu ofan á svart fóru viðsemjendur okkar með okkur þannig í þessu máli að ekki einungis höfnuðu þeir öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar og samninganefndar hennar og þvinguðu fram niðurstöðu sem var auðvitað kolómöguleg heldur höfnuðu þeir líka þeirri niðurstöðu sem Alþingi Íslendinga bauð í haust. Það er einfaldlega rangt og stenst enga skoðun frekar en margt annað í þessu máli að það frumvarp sem ríkisstjórnin er hér að reyna að þvinga í gegnum þingið sé sambærilegt við málið eins og þingið afgreiddi það í sumar. Það stenst enga skoðun. Sumarþingið setti öryggisnet í þetta mál, tryggði að við mundum aldrei verja nema tilteknu hlutfalli af hagvextinum til að standa undir þessum skuldbindingum og að þingið gæti að ákveðnum tíma liðnum fellt ábyrgðina niður. Þessi tvö grundvallaratriði eru ekki lengur til staðar í málinu vegna þess að vaxtagreiðslurnar þurfum við alltaf að reiða fram á hverju ári, algerlega óháð hagvexti og hagþróun í landinu. Sömuleiðis er búið að fella úr málinu heimild fyrir þingið til að fella ábyrgðina niður í framtíðinni.

Á þessu máli eru fjölmargir lagalegir ágallar fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt. Og það leikur vafi á því hvort málið standist stjórnarskrá. Við höfum fengið misvísandi álit í því efni. Hvers vegna leikur vafi á þessu? Jú, vegna þess að hér er verið að leggja fyrir þingið ákvörðun sem felur í sér fjárskuldbindingar sem gríðarleg óvissa ríkir um hvernig muni þróast í framtíðinni. Menn eru að leggja til að þingið taki ákvörðun sem skuldbindur það til mjög margra ára þannig að á hverju ári muni menn þurfa að taka ákvörðun um framlög á fjárlögum sem fullkomin óvissa ríkir um í dag hver verða. Þetta atriði málsins hlýtur að koma til skoðunar gagnvart stjórnarskránni vegna þess að óvissan um fjárhagslegu skuldbindingarnar sem hér er verið að taka ákvörðun um er gríðarleg.

Fleira mætti tína til varðandi lagalega ágalla. Auðvitað er það hörmuleg niðurstaða í þessum viðræðum að við skulum gelda íslenska dómstóla í málinu. Íslenskir dómstólar eru réttir dómstólar í þessari deilu. Úr kröfum erlendra aðila gegn íslenskum útibúum banka sem starfa á Íslandi á að leysa á Íslandi, en ríkisstjórnin er búin að snúa öllu á hvolf. Nú sitjum við uppi með þá stöðu að meira að segja úrlausn íslenskra dómstóla í málinu er ógild ef hún er ekki samhljóma áliti frá Evrópu í málinu. Að öðru leyti gilda um samningana — lög hvaða lands? Jú, Bretlands, Bretanna sem beittu okkur hryðjuverkalögunum. Þeirra dómstólar eiga að fjalla um málið. Og hefur ríkisstjórnin gert eitthvað til að fá bættan okkar hlut vegna þess mikla tjóns sem Bretarnir ollu okkur með því að fella með ósanngjörnum hætti íslenska banka? Nei, ekkert. Hvergi í þessum samningum sér þess stað að menn hafi fengið réttlætingu eða einhvers konar málsbætur og að okkar hlutur hafi verið réttur vegna þess ósanngjarna tjóns sem þannig var yfir okkur fært. Allt þetta hefur íslenska ríkisstjórnin látið yfir sig ganga og leggur til við þingið að við samþykkjum og veitum ríkisábyrgð fyrir. Þetta er hörmuleg niðurstaða.

Því er haldið fram að samningarnir eins og þeir eru bornir upp á þinginu standist hin sameiginlegu viðmið, Brussel-viðmiðin. Höfum eitt í huga, með þeim var viðræðuferlið núllstillt. Það þýðir ekkert fyrir menn að koma hingað og vísa til minnisblaða sem gerð voru fyrir þann tíma. Nei, þá veitti þingið umboð á ákveðnum forsendum. Þessi samningur tekur sannarlega ekki tillit til þess viðræðugrundvallar sem skapaður var með Brussel-viðmiðunum. Ég ætla að leyfa mér að vísa til fyrrverandi utanríkisráðherra um þetta atriði. Það vefst ekki fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að ríkisstjórnin fór ekki fram til viðræðna með þessi viðmið í huga heldur, svo notuð séu hennar eigin orð, samdi um þetta mál eins og sakamaður.

Ég vil segja undir lok umræðunnar um þetta mál að við í Sjálfstæðisflokknum höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að koma vitinu fyrir menn í þessu máli. Því er gjarnan haldið fram að við eigum engan annan kost en þennan, að við leiddum yfir okkur hörmulegri niðurstöðu en þessi vondi samningur býður upp á. Því mótmæli ég. Ég mótmæli því alveg sérstaklega að við Íslendingar værum í verri stöðu með því að fella þennan samning en með því að samþykkja hann. Með því að hafna þessum afarkostum stæðum við í lappirnar og létum ekki beita okkur þvingunum. Það hafa þessar þjóðir gert gagnvart okkur, t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og mörg önnur ríki í Evrópu hafa á bak við tjöldin beitt okkur þvingunum í þessu máli og þannig erum við beitt órétti sem engin önnur þjóð mundi láta yfir sig ganga. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Í hvert sinn sem við höfum mótmælt þessu og látið reyna á þessar hótanir hafa viðkomandi aðilar hörfað.

Hafa ekki íslensku bankarnir verið endurreistir? Höfum við ekki fengið fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er það ekki þannig að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vill ekki kannast við að afgreiðsla þaðan sé háð lausn á þessu máli? Jú, þannig er það nefnilega þrátt fyrir allt það sem sagt hefur verið. Og nú hafa allir forustumenn ríkisstjórna á Norðurlöndunum líka tjáð sig um það að þeir geri ekki lausn á þessu máli að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu gagnvart okkur Íslendingum.

Hver sér ekki hversu sanngjörn krafa það er að úr málinu verði leyst fyrir dómstólum? Hver sér það ekki? Ef upp kemur ágreiningur á milli tveggja þjóða, hvað er ósanngjarnt við það að menn fari fram á að málið verði lagt fyrir hlutlausan dómstól? Við höfum nefnilega boðið hlutlausan dómstól þrátt fyrir að réttir dómstólar séu hér á Íslandi. Þetta undirstrikar það sem ég sagði rétt í þessu, við höfum fyrir löngu síðan boðið sanngjarna lausn á þessu máli, pólitíska kosti sem ættu að hafa leitt til niðurstöðu í málinu fyrir löngu.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar sjálfstæðismanna á þinginu sýnist mér að stjórnarmeirihlutinn sé mjög einbeittur í ákvörðun sinni að koma málinu í gegnum þingið. Allt skal gert fyrir líf vinstri stjórnarinnar á Íslandi. Það er ekki í fyrsta sinn á þessu ári sem menn fórna sannfæringu sinni til að halda lífi í ríkisstjórninni.

En komi Sjálfstæðisflokkurinn til áhrifa í landinu, hvort sem er á þessu kjörtímabili eða því næsta, heiti ég því að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinda ofan af vitleysu þessarar ríkisstjórnar í málinu og leiða þjóðina út úr því kviksyndi sem ríkisstjórnin er að koma okkur í með samþykkt þessa máls. Við munum láta einskis ófreistað til að fá endursamið um þau kjör sem hér er verið að leiða þjóðina í, leiða mönnum það fyrir sjónir að við Íslendingar eigum ekki það skilið sem er verið að þvinga okkur til að samþykkja á Alþingi Íslendinga í dag. Þessa skuldbindingu höfum við gagnvart íslensku þjóðinni, gagnvart kjósendum, gagnvart þeim sem treysta okkur fyrir því að koma hingað og taka réttar ákvarðanir. Við í Sjálfstæðisflokknum munum a.m.k. ekki bregðast því trausti, því umboði, þegar að því kemur.

Þeirra skömm er mikil sem ætla að taka þá ákvörðun hér í kvöld að styðja ríkisstjórnina í þessu ógæfumáli, með þessa ömurlegu niðurstöðu í farteskinu. Og skömmin mun fylgja þeim um langa framtíð.