138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú atkvæðagreiðsla sem nú fer í hönd er kannski ókunnugum dálítið flókin en hún gengur í rauninni bara út á það að við framsóknarmenn höfnum þeim breytingartillögum sem felast í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Við höfum lagt fram okkar tillögur til þess að styrkja þá fyrirvara sem komu fram í lögum nr. 96/2009. Um þá hefur verið mikill ágreiningur á Alþingi og stjórnarliðar og þeir sem samþykktu málið á sínum tíma túlka málið á mismunandi hátt.

Við ætlum að koma í veg fyrir þá ósanngirni og það misræmi sem felst í þeim fyrirvörum sem þá voru samþykktir.