138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Pétur Blöndal hafi fengið þrjú atkvæði út á þetta.

Þetta mál snýst um sjálfstraust og sjálfsmynd og sjálfsvirðingu okkar góðu þjóðar. Það er yfirgengilega sorglegt að við skulum standa hérna og verða vitni að þessu klukkan 11 að kvöldi, það er verið að fremja myrkraverk með því að samþykkja þetta ömurlega frumvarp. [Kliður í þingsal.]

Þessu frumvarpi átti aldrei að breyta, það var komið í skýran og endanlegan búning, sagði hæstv. fjármálaráðherra hér. Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa kosið í kvöld að skapa með ræðum sínum enn á ný sundrung í stað samstöðu, þau hafa talað þjóðina enn á ný í sundur.

Ágæti þingheimur. Við getum enn þá staðið í lappirnar. Við getum enn þá sýnt viðsemjendum okkar að við getum staðið saman á ögurstundu. Fellum þennan samning. Ég segi nei við þessu ömurlega frumvarpi og við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur (Forseti hringir.) segi ég: Þú ert enginn frelsari. [Háreysti í þingsal.] (LRM: Ekki þú heldur.) Enda var ég ekki að líkja mér við … (LRM: Ég var að vitna til hans.) (Forseti hringir.)