138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:02]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að styðja það frumvarp sem hér er til afgreiðslu og segja já. Ég tel það erfitt verk. Mér er það ekki léttbært. Ég lít á það sem skyldu mína í þröngri stöðu að styðja þetta mál, en ég vil líka segja það hér í þessum sal í kvöld að okkur hefur mistekist á þessu þingi að afgreiða þetta mál svo sómi sé að fyrir þjóðina, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) því miður, okkur öllum. Við getum dregið lærdóm af því hvernig okkur tókst til í þessu máli. Þjóðin á það inni hjá okkur að við gerum það þessa máls vegna. Hér er um að ræða í mínum huga siðferðileg reikningsskil liðins tíma. Hvernig við afgreiðum þetta mál ræður framhaldinu og hvernig við byggjum upp að nýju. Hér er upphafið að mínu mati á nýrri byrjun. Ég segi já.