138. löggjafarþing — 66. fundur,  8. jan. 2010.

framhaldsfundir Alþingis – tilkynning forseta um útbýtingu þingskjals (frv. til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010).

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti Íslands hefur gefið út svohljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Forsætisráðherra hefur tjáð mér, að nauðsyn beri til að kveðja Alþingi saman til að fjalla um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að synjað var staðfestingar frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem samþykkt var sem lög frá Alþingi hinn 30. desember sl.

Fyrir því hef ég ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfunda föstudaginn 8. janúar 2010 kl. 10.30.

Gjört á Bessastöðum, 6. janúar 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman til framhaldsfundar.“

Ég býð hæstv. forseta, hv. alþingismenn svo og starfsmenn Alþingis velkomna til starfa. Það er einlæg von mín að störf Alþingis nú verði þjóðinni til farsældar og þinginu til sóma.