138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er öll af vilja gerð til að skilja hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og reyna að botna í því í hverju sáttin eigi að felast. Á sáttin að felast í því að fara með málið fyrir dómstóla?

Alþingi samþykkti lög, forseti hefur synjað þeim staðfestingar og beint þeim til þjóðarinnar. Nú vill formaður Sjálfstæðisflokksins leita sátta. Hver eru þá samningsmarkmið, ef ég má komast þannig að orði, þeirrar sáttar? Eru þau sameiginleg Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Hreyfingu sem hafa greitt atkvæði gegn þessum samningi?

Hvernig eigum við að nálgast málið, frú forseti? Er þetta dómstólaleið? Er þetta nýr samningur, kannski sérstaklega í ljósi þess að formaður (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að Ísland ætli að standa við skuldbindingar sínar?