138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður botnar ekkert í þessum málflutningi og ég held að hún botni ekkert í stöðunni yfir höfuð. Það er eins og hún haldi að þjóðaratkvæðagreiðslan sem fram fer undir lok febrúar eða í byrjun mars sé á grundvelli 11. gr. stjórnarskrárinnar vegna þess að hv. þingmaður telur að forseti þurfi að víkja, staðfesti þjóðin lögin. Þetta er ekki þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 11. gr. heldur á grundvelli 26. gr. og það er dálítið annað mál.

Ef stjórnin og stjórnarflokkarnir skilja ekkert í því hvað stjórnarandstaðan á við þegar við tölum um að nú þurfi að reyna að efla samstöðu og standa gegn þessum afarkostum og þvingunum og koma réttum skilaboðum til útlanda er sýnt að þá fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla. (Gripið fram í.) Við skulum hafa eitt á hreinu, við ætlum ekki að standa gegn því. Við ætlum að samþykkja grundvöll þess í dag í allsherjarnefnd og á þinginu í 2. og 3. umr. Það mun ekki standa á Sjálfstæðisflokknum og ég treysti þjóðinni fullkomlega til að kjósa með sínum hagsmunum þegar að því kemur.