138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er algerlega ómögulegt að koma því til skila til stjórnarliða að með því að fara í viðræður er maður ekki að samþykkja kröfur viðmælandans skilyrðislaust. Ef viðræður leiða ekki til ásættanlegrar niðurstöðu verður enginn samningur og ef ágreiningurinn heldur áfram er það einfaldlega okkar sjónarmið að bera þurfi ágreininginn undir dómstóla. Það er eins og stjórnarliðar haldi að með því að fara í viðræður séu menn búnir að lofa því að ganga að kröfum viðmælenda sinna. Hvers konar endaleysa er þetta eiginlega? Ef stjórnarliðar telja að hugmyndir um að reyna að efla þátt og samstöðu, leiða fram niðurstöðu í þessu máli sem er í betri sátt við íslensku þjóðina, sé fráleit hugmynd hjá stjórnarandstöðunni, gott og vel. Þá heyrum við það hátt og skýrt á þinginu, það er viðhorf stjórnarliðanna. Þá er það einfalt, þá förum við í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar verður þjóðin spurð að því hvort (Forseti hringir.) hún telji að ríkisstjórnin hafi staðið sig í stykkinu.