138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:21]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég segi, þetta er afskaplega dapurlegur málflutningur. Það hafa staðið yfir samningaviðræður um þetta mál í 15 mánuði og hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki enn þá kominn að niðurstöðu um hvað er ásættanleg niðurstaða fyrir þjóðina.

Hvað boðar hann svo núna þegar hann kemur í ræðustólinn? Jú, hann boðar að fara eigi í einhverjar viðræður og síðan eigi að leggja málið fyrir dómstóla. Með öðrum orðum, hann er ekki búinn að leggja það niður fyrir sér enn þá hvað er ásættanleg niðurstaða. Það eru dapurlegu skilaboðin.

Hvað felst þá í boðskap hv. þm. Bjarna Benediktssonar? Jú, að farið verður aftur á núllpunkt í þessu máli, að byrjað verði aftur á löngu samningahjakki. Það eru köld skilaboð frá formanni Sjálfstæðisflokksins til atvinnulífsins í landinu, til fyrirtækjanna í landinu sem þrá að þessu máli sé eytt til að tryggja fjármögnun þeirra vegna þess að þær aðstæður sem upp eru komnar núna þegar Ísland er komið í ruslflokk, ógna efnahagslegum stöðugleika í landinu. Þær koma í veg fyrir að við getum hafið endurreisnina, truflað fjármögnun allra fyrirtækja, auka söluþrýsting á ríkisskuldabréf o.s.frv. Þetta er ósjálfbært ástand (Forseti hringir.) og formaður Sjálfstæðisflokksins sem boðar áframhald á þessu er algerlega vegavilltur.