138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fulltrúar mínir og Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd skiluðu nefndaráliti hér í ágúst sl. Þar sagði m.a., með leyfi forseta:

„Að mati Sjálfstæðisflokksins hefði verið farsælast að hefja þegar viðræður við Breta og Hollendinga um þá stöðu sem uppi er á Alþingi vegna þessa máls …“

Við höfum talað fyrir því allt síðasta sumar, í haust og allan vetur að menn sætti sig ekki við þá samninga sem gerðir voru, (Gripið fram í.) að viðræðurnar yrðu teknar upp. Við töluðum fyrir því fram að því að lögin voru staðfest og við erum að tala um það enn þá eftir að lögin voru staðfest. Í millitíðinni bárum við það upp sem tillögu okkar á þinginu að málið færi fyrir þjóðina vegna þess að við trúum því að þjóðin sé á móti samningnum og við viljum gefa henni tækifæri til að fella hann. Sé ríkisstjórnin þeirrar skoðunar að það komi ekkert annað til greina í þeirri stöðu sem núna er uppi en að fara með málið fyrir þjóðina, í þjóðaratkvæðagreiðslu, er það í fullu samræmi við vilja okkar, höfum það á hreinu, það er í samræmi við okkar eigin tillögu sem við greiddum atkvæði með en stjórnarliðar greiddu atkvæði á móti. (Forseti hringir.) Það er enginn viðsnúningur í okkar málflutningi, ekki á nokkurn einasta hátt.