138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hófstillta ræðu. Ég vona að hæstv. ráðherra komi þeim boðum til ráðherra sinna að það er skynsamlegra að nálgast málið með þessum hætti og reyndar á þjóðin það skilið.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um tvö atriði: Ég hlustaði á hæstv. ráðherra eins og aðrir og það er erfitt að greina hvort það sé virkilegur vilji til að setjast niður og skoða þetta, reyna að ná sátt eða ekki — ég vil fá það á hreint vegna þess að við munum ekki semja við sjálf okkur. Það ætlast enginn til þess að hv. þingmenn segi nákvæmlega til um það hvað eigi að fá út úr samningunum. Það er galið og það vita það allir. Hæstv. ráðherra flutti sem hv. þingmaður frumvarp um þjóðaratkvæði. Þar stóð að fimmtungur kosningabærra manna í landinu gæti krafist þess að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um lagafrumvarp sem Alþingi hefur samþykkt og enginn fyrirvari var á því. Telur hæstv. ráðherra að það frumvarp um breytingar á stjórnarskránni hafi verið mistök?