138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvorki ég né hv. þingmaður getum sagt til um það hver staðan verður ef reynt verður að taka þessa samninga upp og málið fer ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu, ég held að það sé alveg ljóst. Af samtölum þeim sem ég átti í gær við forsætisráðherra Hollands og forsætisráðherra Bretlands kom fram að þeir — þó að þeir lýstu vonbrigðum með þá þróun sem hefur orðið — lýstu yfir vilja til áframhaldandi samstarfs við íslensk stjórnvöld í þeirri erfiðu stöðu sem væri komin upp. Ég held að gott væri að við settumst yfir málin og gerðum tilraun til að skoða það og við í stjórnarliðinu fengjum að heyra hvert upplegg stjórnarandstöðu ætlar að vera í þessu máli áður en við vísum því frá. Ég held að það komi skýrt fram í máli mínu að ef einhver möguleiki opnast til sátta, bæði við þing og þjóð, sem á þann rétt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá erum við tilbúin að skoða það. Ég er tilbúin að funda með formönnum flokkanna hvenær sem er til að fara yfir þessa stöðu.