138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:22]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er einn þeirra sem styðja eindregið að þjóðaratkvæðagreiðsla verði stjórnarskrárbundinn réttur almennings hér á landi á komandi árum og vona að við getum hér, þingheimur, sameinast um breytingar sem leiða til þess að þau mannréttindi verði innleidd í landinu. Ég vek þess vegna athygli á því að umræðan í dag fram að þessu er afar lítið um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar, sem er sögulegt. Við horfum fram á það í fyrsta sinn í manna minnum að þjóðin gangi að kjörborðinu til að greiða atkvæði í svo mikilvægu máli. Sjálfur hef ég haft efasemdir um að þetta mál henti vel til þjóðaratkvæðagreiðslu en látum það liggja milli hluta, við erum stödd þar að forsetinn hefur nýtt stjórnarskrárbundinn rétt sinn til þess að leggja málið undir dóm þjóðarinnar.

Mér var ekki ljóst af ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hver er vilji hans í dag. Hann talaði mjög kröftuglega og skilmerkilega fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir jól en hefur síðan verið að draga í land í fjölmiðlum á undanförnum dögum. Ég vil fá skýrt svar um það hvort hann vill eða vill ekki að þjóðin gangi að kjörborðinu og greiði atkvæði um þetta mál innan nokkurra vikna?