138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:29]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var fátt um svör hjá hv. þingmanni um þá stöðu sem kemur upp ef við synjum lögunum staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við stöndum í þessum sporum frá 28. ágúst, það er staðreynd. Við erum ekki á byrjunarreit, það er staðreynd. Staðan er þröng. Ef menn viðurkenna lágmarkstrygginguna, erum við að ræða um greiðslutíma, við erum að ræða um vexti og hugsanlega eitthvað fleira.

Afstaða Breta og Hollendinga er alveg klár. Hún hefur komið fram í viðræðum síðustu daga. Ég spyr hv. þingmann: Vill hann taka útréttri sáttarhönd hæstv. forsætisráðherra og funda með henni? Hæstv. forsætisráðherra hefur boðið upp á það. Ég skil hæstv. forsætisráðherra þannig að hún rétti fram útrétta sáttarhönd, það verð ég að segja, og að tala svo um að ekki hafi farið fram kynning, öll ríkisstjórnin og fleiri og allt utanríkisráðuneytið hefur verið á kafi, blóðug upp fyrir axlir, í að forða því tjóni sem varð af ákvörðun (Forseti hringir.) forseta Íslands.