138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum rifist um það hver rétti fram sáttarhönd, sá sem kemur hér í ræðustól, talar um að við sem höfum talað fyrir lausn á þessu máli hugsum um eigin hagsmuni frekar en hagsmuni þjóðarinnar, séum fyrst og fremst að tala máli erlendra ríkja erlendis, eins og hér hefur komið fram. Ef það er að rétta fram sáttarhönd í umræðunni hef ég misskilið eitthvað.

Þegar ég fullyrði það, eftir að hafa unnið að þessu máli frá því að ég tók við því sem formaður fjárlaganefndar í byrjun júlí á síðasta ári, fullyrði ég að í þeirri vinnu hafi Framsóknarflokkurinn verið hvað erfiðastur í því að leita lausna, hann hefur stöðugt verið að grugga vatnið. Ég get fært fyrir því fjöldamörg rök.

Það er því ekkert óeðlilegt að ég spyrji formann Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson: Hvað er það sem hann telur ásættanlegt varðandi lögin nr. 96/2009, frá 28. ágúst, að við förum, sækjum fram og reynum að ná þeim í gegn, eins og mátti skilja á máli hans núna fyrir augnabliki? Vill hv. þingmaður dómstólaleiðina, (Forseti hringir.) að við reynum að koma því í þann farveg, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins virtist leggja til, eða er hann með einhverjar aðrar hugmyndir, (Forseti hringir.) án þess að ég ætli að fá nein smáatriði?