138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fullyrti að Framsóknarflokkurinn hefði stöðugt verið að grugga vatnið í þessu máli. Hv. þingmaður fullyrti líka á sínum tíma að hann hefði fullvissu fyrir því að Bretar og Hollendingar mundu fallast á fyrirvarana. Hv. þingmaður fullyrti jafnframt á sínum tíma að frumvarpið væri betra og fyrirvararnir sterkari eftir að lögfræðingar Breta og Hollendinga voru búnir að gera þá að engu. Hv. þingmaður fullyrðir því ýmislegt í þessu máli og er ekki kannski skrýtið að hann skuli ruglast á afstöðu Framsóknarflokksins.

Hv. þingmaður virðist heldur ekki hafa verið að hlusta þegar ég útskýrði hér áðan fyrir hv. þm. Atla Gíslasyni hversu fráleitt það væri ef þingmenn ætluðu hér í ræðustól að fara að útlista nákvæmlega hvað þeir ætla að semja um við Breta og Hollendinga. Telja menn virkilega að það sé ekki allt saman ...X og komi strax út til samningamanna þeirra landa? Hugsanlega hafa menn ekki gert sér grein fyrir því. Hugsanlega hafa þeir þess vegna talað eins og þeir hafa gert í íslenskum fjölmiðlum.