138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[13:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Ég fagna því að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði í alvörumáli. Í dag langar mig mest að gleyma Icesave um stund, geyma það a.m.k., og tala um lýðræðisumbætur og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Ég vil taka það skýrt fram að við þingmenn Hreyfingarinnar erum fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum, í þessu máli sem öðrum. Við erum fylgjandi lýðræðisumbótum í víðum skilningi þess hugtaks og treystum almenningi til að taka afstöðu.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, nefndi það í yfirlýsingu sinni þann 5. janúar sl. að hann vísaði málinu til þjóðarinnar. Svo sagði hann, með leyfi forseta:

„Nú fær þjóðin valdið og ábyrgðina í sínar hendur.

Það er einlæg von mín að þessi niðurstaða leiði til varanlegra sátta og farsældar fyrir Íslendinga um leið og hún leggi grunn að góðri sambúð við allar þjóðir.“

Frú forseti. Nú fær þjóðin valdið og ábyrgðina í sínar hendur. Nú þarf almenningur að taka upplýsta ákvörðun um þetta mál og þá er mikilvægt að hann fái greiðan aðgang að hlutlausum og vel unnum upplýsingum frá hlutlausum fagmönnum.

Í gær hóf Fréttablaðið fréttaskýringaþátt á síðum 6–10 undir heitinu „Óvissa vegna synjunar forseta“. Þar var að finna ótal greinar og var niðurstaðan eftir lestur greinanna á einn veg — engin óvissa er í spilunum, þjóðaratkvæðagreiðsla er bein leið til glötunar.

Í dag svaraði Morgunblaðið með fréttaskýringu með örlítið hlutlausara nafni, „Synjun forseta á Icesave-lögunum“. Þar eru aðallega góðar fréttir um þá björtu framtíð sem blasir nú við Íslendingum, bæði á alþjóðavettvangi og hér heima, eftir það sem fjölmiðlar kalla synjun forseta á lögunum, en rétt er þó að benda á að forsetinn synjaði lögunum ekki, hann vísaði þeim til þjóðarinnar.

Nú er það svo að ég er hallari undir málflutning Morgunblaðsins í þessu máli en Fréttablaðsins en það er aukaatriði. Aðalatriði málsins er að við verðum að skapa sátt í þjóðfélaginu og það gerum við ekki með stríðandi fylkingum.

Ef stjórnmálamenn og fjölmiðlar eiga einir að kynna þá tvo kosti sem standa til boða er nokkuð ljóst að umræðan verður aldrei hlutlaus. Við höfum karpað um þetta mál mánuðum saman án þess að nokkur maður, svo vitað sé, hafi skipt um skoðun.

Ég kalla því eftir því að fundinn verði eða búinn til hlutlaus aðili sem getur tekið saman gögn málsins. Víða þar sem hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum starfa óháðar stofnanir sem hafa það hlutverk að meta kosti og galla og afleiðingar laga á hlutlausan hátt og matreiða upplýsingarnar með þeim hætti að þorri almennings geti auðveldlega sett sig inn í málin og tekið upplýsta afstöðu.

Fyrir þinginu hafa legið um skeið tvö frumvörp um þjóðaratkvæðagreiðslur, annað frá hæstv. forsætisráðherra, hitt þingmannafrumvarp, m.a. frá þingmönnum Hreyfingarinnar. Búið er að mæla fyrir þeim, leita umsagna og eru þau í vinnslu í allsherjarnefnd þingsins. Því kemur á óvart að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra skuli leggja fram glænýtt, einnota frumvarp um þessa tilteknu þjóðaratkvæðagreiðslu, frumvarp sem stendur til að keyra í gegnum þingið í dag án þess að ráðrúm gefist til að leita vandaðra umsagna sérfræðinga og annarra sem málið varða. Það er ljóst að þingi og þjóð gefst ekki ráðrúm til að huga að því hvernig best er að ráðast í þessa mikilvægu aðgerð.

Í frumvarpi Hreyfingarinnar er gert ráð fyrir að svokölluð Lýðræðisstofa hafi það hlutverk að taka saman upplýsingar sem máli skipta, greina kosti og galla og fræða almenning um báða kostina. Í þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á er ekki gert ráð fyrir hlutlausri, opinberri kynningu til almennings. Við, þingmenn Hreyfingarinnar, munum leggja fram breytingartillögu við 2. umr. sem mundi tryggja hlutlausa og trygga upplýsingmiðlun til almennings.

Icesave-málið hefur dvalið of lengi í skotgröfunum. Það er vissulega flókið en þó ekki flóknara en svo að þorri almennings getur skilið það til hlítar fái hann vandaða samantekt á báðum kostum. Hluti þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um málið er í svokallaðri leynimöppu í þinginu og verða þær varla gerðar opinberar úr þessu.

Það virðist vera ætlun stjórnvalda að hin „upplýsta umræða“ um málið fari fram í fjölmiðlum og komi frá stjórnmálamönnum. Þær upplýsingar sem koma frá stjórnmálamönnum eru afskaplega litaðar eftir því hvort þær koma frá stjórnarliðum eða stjórnarandstæðingum og það er skiljanlegt. Hræðsluáróður af versta tagi hefur því miður verið afskaplega áberandi á kostnað staðreynda og yfirvegaðra samræðna. Það er í meira lagi bagalegt fyrir hinn almenna kjósanda að geta ekki stólað á að fá hlutlausar og traustar upplýsingar um málið og vita ekki hverjum skal treysta.

Ég hef einnig efasemdir um spurninguna sem verður lögð fyrir þjóðina. Setningin er flókin, felur í sér nokkrar aukasetningar og krefst töluverðrar forþekkingar frá almenningi. Ég geri mér grein fyrir því að hluti vandans liggur í því að heiti laganna verður að koma fram í spurningunni. Mér dettur í hug hvort heiti laganna mætti koma fram í inngangi að spurningunni eða í neðanmálsgrein og mér þætti vænt um ef hv. allsherjarnefnd sæi sér fært að skoða það nánar.

Frú forseti. Nú stendur þjóðin á tímamótum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan er fram undan og nú þurfum við að vanda okkur svo hún geti sameinað þjóðina í réttri lýðræðislegri ákvörðun, hver sem hún verður, frekar en að sundra henni.