138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist sem þetta séu fimm spurningar sem hv. þingmaður ber fram til mín og ég veit ekki hvort ég kemst yfir að svara þeim á tveimur mínútum en ég skal reyna.

Fyrst varðandi rafræna kosningu þá var það ekki rætt sérstaklega í nefndinni. Það liggur hins vegar fyrir af hálfu dómsmálaráðuneytisins að það úrræði er alltaf í þróun og verður það auðvitað áfram. Hins vegar eru miklir annmarkar á því en ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði beitt rafrænni kosningu í mun ríkari mæli en gert er í dag.

Varðandi mörk kjördæma er það rétt sem hv. þingmaður sagði og ég lýsti því í minni framsöguræðu að það væri æskilegra að þetta væri á einum miðlægum stað, að talið væri á einum stað og birtar landsniðurstöður en ekki skipt eftir kjördæmum. Hins vegar er mjög skammur tími til stefnu og nefndin hafði mjög lítinn tíma til þess að fara yfir málið. Þess vegna leggjum við til að þetta verði óbreytt að sinni en í framtíðinni þegar við Íslendingar verðum farnir að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum mun oftar en við gerum nú sé ég fyrir mér að það fyrirkomulag verði viðhaft.

Varðandi hvort stjórnin fari frá var það ekki sérstaklega rætt í dag í allsherjarnefnd, enda sé ég ekkert samasemmerki á milli þess hvort stjórnin sitji og þess hvernig þessi atkvæðagreiðsla fer fram.

Varðandi kosningabaráttuna, sem var síðasta spurningin sem hv. þingmaður spurði mig að, var það heldur ekki rætt sérstaklega í nefndinni. Þó er auðvitað augljóst að þeir sem berjast mjög gegn þessum samningi munu grípa til vopna og reyna að koma sínum málstað á framfæri og ég á von á því að þeir sem eru fylgjandi samningnum geri það einnig.