138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, allsherjarnefnd ræddi ekki sérstaklega orð forsetans í þessu samhengi, enda höfðum við ekki langan tíma til að ræða þetta mál og þetta kom ekki sérstaklega til tals.

Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði áðan að í þessu máli verður það auðvitað þannig að mjög margir koma til með að hafa mjög sterkar skoðanir á málinu. Þingmenn koma til með að hafa skoðanir, ráðherrar koma til með að hafa skoðanir, almennir borgarar, félagasamtök og fleiri. Ég held að ekki sé hægt að múlbinda eða takmarka eitthvað sérstaklega málfrelsi þingmanna, ráðherra eða kjörinna fulltrúa yfir höfuð í þessu máli og þá er ég ekki endilega að segja að þeir eigi að beita sér sérstaklega í málinu. Ég tiltók það sérstaklega áðan í andsvari mínu við hv. þm. Pétur Blöndal að ég tel mikilvægt að stjórnvöld hlutist til um að kynningin sé eins hlutlaus og hægt er. En á sama tíma er alls ekki hægt að banna einstaka þingmönnum að tjá sig um málið eða hafa skoðanir á því. Málið er af þeirri stærðargráðu að það hefur verið í almennri umræðu í næstum því ár og ég held að það sé algjörlega ótækt að ætlast til þess að menn þegi þunnu hljóði fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Við verðum hins vegar að treysta þingmönnum og stjórnmálamönnum almennt til að haga málflutningi sínum þannig að hann sé hófstilltur og gangi ekki fram úr hófi, en það er af og frá að hægt sé að takmarka eitthvað málfrelsi þingmanna í aðdraganda þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu.