138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi lýsa því að miðað við þann þrönga tímaramma sem allsherjarnefnd var gefinn til þess að vinna þetta mál var farið vandlega yfir flest þau álitamál og spurningar sem þetta frumvarp vekur. Ég held að nefndarstarfið hafi verið gott miðað við þær þröngu forsendur sem fyrir lágu. Við ræðum þetta mál við þær sérstöku aðstæður að 26. grein stjórnarskrárinnar er orðin virk með þeim hætti að þingið þarf að bregðast við. Þá þurfum við að taka málið hratt á dagskrá og afgreiða það hratt þannig að ekki standi á þessum þætti. Ég held að allsherjarnefnd hafi lagt sig fram um að gera það vel miðað við aðstæður.

Ég get sagt fyrir sjálfan mig og væntanlega aðra í mínum flokki að við erum sátt við frumvarpið með þeim breytingum sem allsherjarnefnd leggur til og gerum ekki ágreining um einstök atriði í þessu. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að hér er um verkefni að ræða sem liggur fyrir og við þurfum að leysa. Við þurfum að leysa það hratt og breytingartillögurnar fela það í sér að verið er að snurfusa hlutina á frekar tæknilegan hátt. Breytingin sem hér hefur mest verið rætt um varðar framsetningu spurningarinnar. Það er atriði sem við ræddum töluvert í nefndinni og komu fram mismunandi sjónarmið um það.

Eins og hefur komið fram er nauðsynlegt að hafa í huga að hér er verið að greiða atkvæði á grundvelli 26. greinar. Þar er kveðið á um að leita skuli eftir afstöðu þjóðarinnar til þess hvort lögin eigi að halda framtíðargildi eða ekki og því verður ekki hjá því komist að orða spurninguna einhvern veginn þannig að það kalli fram jákvætt eða neikvætt viðhorf kjósenda til þeirrar spurningar. Það er verið að kjósa um framtíðarfyrirkomulag.

Það komu fram sjónarmið m.a. frá félagsvísindamönnum sem unnið hafa bæði að kosningarannsóknum og rannsóknum í skoðanakönnunum að það er ákveðin tilhneiging sem þeir telja að sé mælanleg eftir aðferðum félagsvísindanna, það sé ákveðin samþykkistilhneiging hjá kjósendum. Þess vegna er það ákveðinn vandi sem menn standa frammi fyrir að orða spurninguna þannig að jafnvægis sé gætt. En ég held að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir af hálfu allsherjarnefndar með þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir sé góð. Við erum svolítið að bögglast með þetta langa lagaheiti en í mínum huga liggur það fyrir að spurningin er skýr í þessu sambandi. Það er ekki um að ræða neinn halla nema bara þann halla sem leiðir af eðli málsins þegar fólk þarf að svara annaðhvort með jákvæðum eða neikvæðum hætti. Ég er alla vega fyrir mitt leyti sáttur við þessa niðurstöðu.

Það voru auðvitað, eins og fram hefur komið í umræðunni, fleiri atriði sem voru nefnd á fundinum. Meðal annars var kallað nokkuð eftir því að það yrði skýrt í lagatextanum eða kæmi alla vega fram með skýrum hætti að í þessari kosningu ætti reglan að vera einn maður eitt atkvæði vegna þess misskilnings sem hv. formaður vék að hér áðan, að tilvísunin til alþingiskosningalaganna leiddi til þess að sami halli yrði á atkvæðum fólks hér á suðvesturhorninu og þar kemur fram. Það er auðvitað ekki og var aldrei ætlunin. Við teljum að ákveðin orðalagsbreyting sem þarna er gerð verði enn frekar til að undirstrika þann skilning að auðvitað er ekki um að ræða neinn mismun á vægi atkvæða eftir kjördæmum þó að notast sé við kjördæmafyrirkomulagið og kjörstjórnarfyrirkomulagið sem við þekkjum úr alþingiskosningum, til þess einfaldlega, eins og formaður landskjörstjórnar lýsti á fundi okkar, að nýta það kerfi sem við höfum þannig að við séum ekki að smíða eitthvað nýtt í óðagoti nú þegar við þurfum að ganga hratt til verks.

Sama á við um aðra þætti þarna, það er vísað til alþingiskosningalaganna eftir því sem við á. Ég held að við séum komin með lagasetningu þegar við höfum gengið frá þessu frumvarpi sem dugar okkur í þessi tilviki þegar við þurfum að klára málið með svona skjótum hætti.

Auðvitað eru fleiri álitamál sem geta komið til þegar við ræðum um framtíðarlagasetningu varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Eins og fram hefur komið erum við með tvö slík frumvörp til meðferðar í allsherjarnefnd. Vissulega velti ég því fyrir mér hvort unnt væri að afgreiða þau með hraði til þess að búa til þann lagaramma sem nauðsynlegur var í ljósi synjunar forseta. Ég geri hins vegar engan ágreining um þá leið sem hér er valin en vil árétta að þó að við förum þessa tilteknu leið á þessum tiltekna grundvelli nú þegar við afgreiðum málið í skyndi að aðrar spurningar kunna að vakna og önnur sjónarmið kunna að koma upp þegar við ræðum um þessa lagasetningu til frambúðar á grundvelli þeirra frumvarpa sem liggja fyrir. Ég vil því ekki taka undir þau sjónarmið sem komu fram m.a. hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að þessi löggjöf sé fordæmisgefandi. Ég vil ekki að við bindum hendur okkar varðandi framtíðarfyrirkomulag að þessu leyti endilega með þessari lagasetningu þó að auðvitað sé óhjákvæmilegt að litið verði til þessa máls og þeirrar reynslu sem hlýst af framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum grundvelli. En ég áskil mér rétt til þess að hafa uppi ýmis sjónarmið í umræðum um almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur þegar þar að kemur, ég vil ekki gefa það neitt frá mér þó að ég geri ekki ágreining um þau atriði sem fram koma í þessu frumvarpi.

Ég vil að lokum nefna að ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. formanni allsherjarnefndar um að í þjóðaratkvæðagreiðslu væri auðvitað eðlilegt að talið væri fyrir allt landið. Mér finnst það almennt sjónarmið, það er einn maður / eitt atkvæði. Það er kannski forvitnilegt fyrir stjórnmálamenn, fjölmiðla og stjórnmálaskýrendur að fá upplýsingar um kosningaúrslit í einstökum kjördæmum en það þjónar ekkert því markmiði sem þjóðaratkvæðagreiðslunni er ætlað að koma til móts við. Um þetta atriði, eins og raunar fleiri, áskil ég mér rétt til að hafa aðra skoðun þegar við ræðum um almenn lög um þjóðaratkvæðagreiðslur til frambúðar þó að ég geri ekki ágreining um þetta atriði að sinni einmitt vegna þeirra atriða sem ég vísaði til áðan úr máli formanns landskjörstjórnar, að við ættum bara að notast við það kerfi sem við höfum. Við erum í þeirri stöðu að þurfa að ganga til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu innan fárra vikna og við skulum bara nota það sem við höfum að því marki sem það er hægt og reyna að hafa framkvæmdina þannig að þegar málið er komið á fulla ferð getum við deilt um efnisatriði málsins. Við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af framkvæmdinni eða forminu, ég held að það sé mikilvægt. Þá er ágætt að notast við það fyrirkomulag sem fyrir hendi er og reynsla er af að því marki sem hægt er, eins og ég árétta.

Varðandi kosninguna sem slíka kom hér spurning upp í umræðum áðan um hvort stjórnmálamenn muni halda sig til hlés í þessari umræðu. Ég segi fyrir mig að hjá því verður auðvitað ekki komist að stjórnmálamenn, hvort sem þeir eru í embættum ráðherra eða þingmanna, taki virkan þátt í þeirri umræðu sem eiga mun sér stað á næstu vikum. Ég vona hins vegar innilega að við verðum ekki ein á þeim vettvangi heldur að það verði mikil þátttaka af hálfu almennings í þeirri umræðu og hvet til þess að sem flestir fari ofan í þetta mál og leggi sitt af mörkum í þeirri umræðu sem fram undan er. Við erum auðvitað að ganga í gegnum ákveðna — við getum kallað þetta lýðræðisæfingu með því að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu núna vegna þess að við höfum ekki reynslu af slíku fyrirkomulagi, af þessari aðferð til þess að komast að niðurstöðu með lýðræðislegum hætti. Við erum því að ganga í gegnum ákveðna æfingu að þessu leyti. Ég held að það sé mjög mikilvægt og æskilegt að sem flestir taki þátt í þeirri baráttu en ég held að ég tali fyrir munn flestra sem hér eru inni að við þingmenn, sem höfum legið yfir þessu máli núna svo mánuðum skiptir og haft miklar skoðanir á því, hljóðnum ekki. Þó að málið sé formlega komið úr okkar höndum munum við áfram sem stjórnmálamenn og sem borgarar hafa skoðanir á því og láta þær í ljósi. Ég segi alla vega fyrir mig að ég lofa því eða hóta, eftir því sem ég hef mátt til, að ég mun leggjast gegn því að þessi lög haldi frambúðargildi sínu og ætla ekkert að draga af mér í þeirri baráttu. Ég býst við að það sama eigi við um stjórnmálamenn sem sitja hérna beggja vegna borðsins, bæði ríkisstjórnarmegin og stjórnarandstöðumegin.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, og legg bara til að við reynum að klára þetta mál hratt og örugglega. Ég held að í þessu lagafrumvarpi séu engir sérstakir pyttir eða hættur sem við þurfum að varast. Með samþykkt þeirra fáum við þann ramma sem við þurfum til að láta þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram eins og nú liggur fyrir.