138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[18:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er rætt er til komið inn á þingið í kjölfar þess að forseti Íslands hefur neitað að skrifa undir lög sem Alþingi hafði samþykkt. Ég vil við þessa umræðu taka fram að ég er enn sem áður þeirrar skoðunar að ekki sé um að ræða réttan skilning á stjórnarskránni, þ.e. ég tel að það sé ekki hægt fyrir forseta Íslands að neita að skrifa undir lög frá Alþingi. Þetta hefur verið skoðun mín lengi og þær röksemdir og sú atburðarás sem hér hefur átt sér stað, og hér hafa komið fram, hafa ekki í neinu breytt þeirri afstöðu minni. Ég tel að ákvæðið eigi rót sína að rekja til þess tíma þegar einvaldskonungar Evrópu voru að tosast á við þjóðþingin um vald og þaðan komi þetta inn í okkar stjórnarskrá — að sjálfsögðu ekki með sama hætti og var þegar konungar gátu neitað að skrifa undir lög og ekkert annað gerðist, en samt sem áður tel ég einsýnt að forseti, sem samkvæmt stjórnarskránni ber ekki ábyrgð á stjórnarathöfnum, geti ekki farið með það gríðarlega vald að geta sett hvaða mál sem er í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með komið viðkomandi ríkisstjórn, ef honum sýnist svo, í þá stöðu að ekki er sætt fyrir hana. Ég tel að það sé galli í stjórnskipuninni og það hafi verið þegjandi samkomulag um það í stjórnmálum hér á landi að þetta ákvæði yrði ekki notað. Það var notað árið 2004 og Alþingi ákvað að bera þau lög ekki upp í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hefur það aftur verið notað. Þetta vildi ég sagt hafa til að það liggi alveg fyrir að ég hef ekki breytt um afstöðu í þessu máli.

Hinu er ekki að leyna að nú er sú staða komin upp að forseti hefur neitað að skrifa undir og því er þjóðaratkvæðagreiðsla fram undan. Við sjálfstæðismenn lögðum það til hér á Alþingi að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Og hvers vegna var það, herra forseti? Það var vegna þess að við töldum að gera þyrfti allt til að koma í veg fyrir að sá samningur sem lá fyrir þinginu í frumvarpsformi, þ.e. sú ákvörðun að veita ríkisábyrgð til að styðja við þann samning sem fyrir lá á milli Breta, Hollendinga og Íslendinga, næði fram að ganga. Við töldum betra að þjóðin fengi tækifæri til að segja nei heldur en að af þessu yrði. Um leið horfðum við að sjálfsögðu til þess, kæmi til þess að hér yrði þjóðaratkvæðagreiðsla, að tími mundi vinnast til að fara aftur til Breta og Hollendinga og segja: Þessi samningur, þessar kröfur sem þið eruð að gera á hendur okkur Íslendingum, er svo þungbær að sú staða getur komið upp að ekki verði hægt að standa undir þeim byrðum sem leggja á á þjóðina.

Alþingi felldi þessa tillögu. En við erum komin í sömu stöðu hvað það varðar að þjóðaratkvæðagreiðsla er fram undan vegna þess að forseti neitaði að skrifa undir lögin. Nú skiptir mestu máli, og alveg gríðarlega miklu máli, herra forseti, að við alþingismenn og framkvæmdarvaldið notum þann tíma sem gefst fram að þjóðaratkvæðagreiðslu til að ræða við Hollendinga og Breta, við ESB, við Norðurlöndin, gera grein fyrir málstað okkar og reyna hvað við framast getum að fá betri niðurstöðu í þetta mál en þá sem blasir við og var samþykkt hér á Alþingi á dögunum. Það er lykilatriði. Ég tel að nokkuð hafi borið á misskilningi, bæði í fjölmiðlum og hér í þingsalnum, um afstöðu okkar sjálfstæðismanna hvað þetta varðar. Þær raddir hafa jafnvel heyrst að við höfum fallið frá öllum hugmyndum um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekkert er fjarri lagi. Við höfum sagt að það sé miklu betra að þjóðin fái að segja skoðun sína og fái tækifæri til að hafna þeim samningi og þeirri ríkisábyrgð sem liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er eðlileg ósk. Um leið er það krafa okkar að allir ábyrgir menn sameinist nú um það að fara aftur til þessara viðsemjenda og reyna allt sem við getum gert til þess að ná betri árangri. Af því það sem fyrir framan okkur er, sú ábyrgð sem við eigum að gangast undir, getur við vissar aðstæður — ef gengið þróast með ákveðnum hætti, ef endurheimtur eigna verða minni en ætlað var, ef hagvöxtur verður minni en ætlað var — orðið óbærilegt fyrir íslenskt þjóðarbú.

Það er áhugavert að bera þetta saman við þær byrðar sem bresk stjórnvöld eru tilbúin að leggja á þegna sína vegna bankahrunsins en þá er verið að tala um u.þ.b. 100 milljarða punda. Þegar sú upphæð er yfirfærð yfir á íslenskt efnahagslíf og íslenskan mannfjölda er það það sama og vextirnir af Icesave í tvö ár. Undan þessu kveina Bretar mjög. Hér er verið að tala um sambærilegar tölur og þá er allt hitt eftir sem á okkur hefur dunið vegna bankahrunsins. Það hljóta allir sanngjarnir menn að sjá, fyrir utan það sem þó hefur gerst hér á undanförnum dögum, eftir að forseti neitaði að skrifa undir, að málstaður okkar Íslendinga hefur fengið athygli og margir hafa komið og stutt okkur í þessu.

Herra forseti. Við göngum að sjálfsögðu til þessarar atkvæðagreiðslu. Við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál en við eigum áður en til þess kemur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá betri samning þannig að hægt verði að taka það fyrir hér á Alþingi áður en til slíks kæmi. Ef það er ekki hægt fer þjóðaratkvæðagreiðslan fram og ég er sannfærður um að þjóðin mun segja nei við þessu, þjóðin mun segja nei við því að taka á sig þessar byrðar sem mönnum ber ekki skylda til að axla og er gert með þvílíku offorsi af hálfu erlends valds að annað eins þekkist vart í nútímasögu. Hvað gerist þá í kjölfarið? Jú, við munum þá þurfa að fara til Breta og Hollendinga í framhaldinu af þjóðaratkvæðagreiðslunni og ræða við þá um framhald málsins. Við hljótum því að hefja þessar viðræður strax. Það er lykilatriði, herra forseti.

Hvað varðar sjálft frumvarpið vil ég segja að það skiptir auðvitað miklu máli að vel sé að verki staðið, að við vöndum okkur, að við séum ekki að flýta okkur með þessa atkvæðagreiðslu og gefum okkur allan þann tíma sem þarf til að tryggja að framkvæmd hennar verði með þeim hætti að örugga megi telja. Það skiptir meginmáli. Mér sýnist hv. allsherjarnefnd hafa lagt grunn að því og frumvarpið er í öllum meginatriðum þannig að hægt er að fella sig við það. En ég legg áherslu á það að að baki sé góð samstaða allra flokka. Ég sé ekki betur en það hafi náðst í nefndinni og þá er hægt að halda áfram með málið og taka þá atkvæðagreiðslu sem fram undan er. Að sjálfsögðu er það skoðun okkar sjálfstæðismanna að slíkt eigi að gerast en á undan viljum við sjá þessa tilraun og hún verður að eiga sér stað. Annars tel ég að þvílíkir váboðar séu fram undan fyrir íslenska þjóð að það væri hörmulegt ef okkur mistækist að nýta þetta tækifæri sem við höfum.