138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:21]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrir framsögu hv. formanns allsherjarnefndar. Ég hef ekki miklu við hana að bæta. Ég vil líka þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf. Það þurfti að vinna þetta mjög hratt, en það var unnið faglega, færustu sérfræðingar á sviði lögfræði og félagsvísinda voru kallaðir fyrir og niðurstaðan endurspeglast m.a. í þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum. Hv. formaður allsherjarnefndar hefur skýrt sjónarmið nefndarmanna mjög vel í andsvörum við hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég tek undir það. Breytingin sem var gerð á 3. gr. frumvarpsins er fyrst og fremst orðalagsbreyting, engin efnisbreyting er fólgin í henni. Ég get kannski rökstutt breytinguna, þótt okkur hafi verið settar þröngar skorður vegna stjórnarskrárinnar hvernig ætti að orða þetta, þá er þessi breyting í þágu íslenskrar tungu, eins langt og komist var. Í staðinn fyrir að hafa eina langa setningu með mörgum innskotssetningum og öðru, er henni skipt upp í þrjár setningar.

Mjög margar góðar hugmyndir komu fram innan nefndarinnar. Rætt var um að telja á einum stað og að landið yrði eitt kjördæmi. Það var reyndar ekki rætt um rafrænar kosningar en þær hefur borið á góma. Rætt var um málskot beint til Hæstaréttar frá landskjörstjórn. Ég galt varhuga við þessum breytingum, þótt ég gæti verið sammála þeim öllum saman, reyndar hjartanlega sammála þeim. Auðvitað á landið að vera eitt kjördæmi þegar þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram, en ég galt varhuga við því vegna þess að þegar maður opnar lögin um alþingiskosningar kann ein breyting að kalla á aðrar. Það gafst ekki tími til að gaumgæfa það í dag, það gafst bara ekki tími til þess, en ég held að vilji hafi verið til þessara breytinga allra og í meðförum allsherjarnefndar eru nú tvö frumvörp, eins og formaður allsherjarnefndar kom inn á.

Ég vil líka vekja athygli á því að lög um alþingiskosningar eru margreynd og framkvæmd alþingiskosninga hér á Íslandi hefur gengið eins og smurð vél. Reyndar gildir það sama um sveitarstjórnarkosningar. Að baki þessari góðu framkvæmd er afar gott starfsfólk sem vinnur að kosningum og hefur sumt gert það um áratugaskeið, þekkir allt ferlið og að mínu mati var ekki rétt að rugga þar bátnum.

Aðrar breytingar sem gerðar voru voru til áréttingar og eru til bóta. Ég og flokkur minn styðjum heils hugar frumvarpið í þeirri mynd sem það er nú í við 2. umr. og er ekki meira um það að segja.

Ég ítreka þakkir mínar til formanns nefndarinnar og nefndarmanna fyrir fagleg vinnubrögð.