138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:24]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fara yfir það sem fram kemur í nefndarálitinu að rætt hafi verið um mikilvægi hlutlausrar kynningar á þjóðaratkvæðagreiðslunni og að það hafi verið upplýst af hálfu ráðuneytisins að nú þegar hafi verið tekin frá tvö lén sem unnt sé að nota í því skyni.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir nefndu áðan að dómsmálaráðuneytið ætti hlutverki að gegna í því að útbúa hlutlaust kynningarefni, þ.e. alla vega stuðla að því að það sé gert. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi líka að hugsanlega ætti að gera bækling, auk þess að standa fyrir opnum borgarafundum og eflaust eitthvað fleira.

Hvað varðar hlutverk kynningarefnis þá rakti ég í andsvörum fyrr í dag að ég teldi ekki alls kostar heppilegt að dómsmálaráðuneytið sæi sjálft um að útbúa slíkt kynningarefni, þótt vissulega sé framkvæmd atkvæðagreiðslunnar á ábyrgð ráðuneytisins. Ráðuneytið gæti þó gert tilraun til að hafa milligöngu um ráðningu hlutlauss aðila sem sæi um að útbúa hið hlutlausa kynningarefni að svo miklu leyti sem fjárveitingar leyfðu. Í því sambandi vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að hlutlaust kynningarefni sé kynningarefni sem er laust við áróður af nokkru tagi og þar séu kostir atkvæðagreiðslunnar kynntir með heiðarlegum og sanngjörnum hætti. Slíkt tel ég ekki gert án þess að fá utanaðkomandi aðila, en ljóst er að val á slíkum aðila er mjög vandasamt en þó varla útilokað. Því segi ég hér að ráðuneytið mun leitast við að gera sitt allra besta til að reyna að koma til móts við þennan vilja Alþingis að svo miklu leyti sem hann liggur fyrir.