138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:29]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt er að þess er getið að birta skuli spurninguna sem borin er undir atkvæði með auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Þótt fordæmi séu yfirleitt góð, svo ég tali nú ekki um að þau hafi reynst vel, og í lagi að byggja á þeim eru þau samt ekki afsökun fyrir því að hafa allt óbreytt. Ég tel að þetta fordæmi sé úr kosningalögum sem ekki hafa tekið mið af því að netmiðlar eru orðnir jafnöflugir og raun ber vitni. Því tel ég að þótt lagaskyldan nái einungis til Ríkisútvarpsins og dagblaða veiti það dómsmálaráðuneytinu engu að síður heimild til að auglýsa í netmiðlum og tel ég það bara sjálfsagt mál.