138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

[12:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir skömmu síðan bað Alþýðusamband Íslands Capacent Gallup að kanna hversu hátt hlutfall þjóðarinnar hefur þurft á sérstökum úrræðum að halda varðandi skuldavanda heimilanna. Og þar kom m.a. fram að af þeim fjölda sem hefur nú þegar leitað sér aðstoðar hafa 83% ekki fengið fullnægjandi úrlausn mála sinna að eigin mati. Með öðrum orðum, eins og sagði í fréttinni fá stjórnvöld og bankastofnanir falleinkunn þegar kemur að aðstoð við skuldsett heimili í landinu. Ekki nóg með það, forseti Alþýðusambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, tók sterkt til orða, með leyfi forseta:

„Það er alveg ljóst að miðað við þessar niðurstöður er þetta mikil gagnrýni og áfellisdómur fyrir stjórnvöld og þau eru ekki að standa sig í stykkinu vegna þess að fólk er ekki að fá lausn sinna mála.“

Ég vil gjarnan fá fram afstöðu hæstv. forsætisráðherra gagnvart þessum orðum forseta ASÍ og þá einnig fá að vita: Er verið að undirbúa frekari úrræði fyrir akkúrat þennan hóp fjölskyldna sem eru í miklum erfiðleikum? Og hvaða úrræði á þá hugsanlega að bjóða upp á?