138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

[12:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svarið en verð þó að segja eins og er að mér finnst þessi svör ríkisstjórnarinnar virka eins og smáskammtalækningar fyrir fjölskyldurnar í landinu. Frekari úrræði varðandi nauðungarsölurnar eru ekki lausn á skuldavanda heimilanna. Ég ítreka það sem við sjálfstæðismenn höfum sagt ítrekað frá því í sumar, við höfum talað um þessi gríðarlega stóru verkefni upp á mörg hundruð milljarða hugsanlega. Allir stjórnmálaflokkar hafa komið með fínar hugmyndir til að reyna að leysa þetta. Ég undirstrika að ég tel að í þessu máli skipti mestu þverpólitísk nálgun til lausnar þessa skuldavanda heimilanna sem væri mikilvæg, þverpólitísk nálgun allra flokkanna til að leysa þetta gríðarlega erfiða mál sem tengist heimilunum en ekki síður atvinnulífinu í landinu. Ég hvet forsætisráðherra til að huga betur að slíkri nálgun.