138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

[12:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki draga úr því sem hv. þingmaður heldur fram, vandinn er mikill en hann er ekki hjá mjög stórum hóp. Þó að ég segi ekki mjög stórum hóp er hann samt allt of stór af því að vandi þessa hóps er mjög mikill. Ég sé ekkert í vegi fyrir því að stjórnarandstaðan komi með einum eða öðrum hætti að lausn þessa vanda. Það er fyrst og fremst á forræði félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra að skoða þetta mál, reyndar líka efnahags- og viðskiptaráðherra, og mér finnst að það eigi að skoða með jákvæðum huga að stjórnarandstaðan komi að þessu máli og skoða það sem hún hefur fram að færa.

Í gegnum þessa greiðslujöfnun sem verið er að bæta þurfa auðvitað og munu koma til afskriftir. Menn eru mikið að tala um þær. Það er alveg ljóst að það þarf að afskrifa hjá einstaklingum sem standa ekki undir skuldbindingum sínum, ekkert síður en hjá fyrirtækjum sem eru í miklum erfiðleikum og hafa ekkert greiðsluþol til að standa við skuldbindingar sínar. Þá telur (Forseti hringir.) einmitt greiðslujöfnun lítið.