138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

stofnun atvinnuvegaráðuneytis.

[12:25]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er skýrt kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum að fækka eigi ráðuneytunum úr 12 í 10. Það á að koma nýtt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem tekur til allra atvinnugreina, eins og orðað er í stjórnarsáttmálanum, og einnig er rætt um nýtt umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem fær auk þeirra verkefna sem fyrir eru lykilhlutverk varðandi rannsóknir, nýtingarstefnu, ráðgjöf og verndun á sviði auðlindamála.

Þetta hefur verið næsta verkefni í þeim breytingum sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í varðandi fækkun og sameiningu ráðuneyta til hagræðingar. Það er enginn bilbugur á ríkisstjórninni í þessu efni enda er þetta kirfilega neglt niður í stjórnarsáttmálann og það sem er í stjórnarsáttmálanum hefur auðvitað ríkisstjórnin skyldur til að framkvæma, báðir flokkarnir. Ég hef ekki heyrt að það sé neinn bilbugur á mönnum í þessu máli. Ég hlusta auðvitað á sjónarmið Vinstri grænna sem hafa sagt um þetta ráðuneyti að þeir vilji fara eitthvað hægar í þetta, a.m.k. einhver hluti þeirra. Undirbúningur fyrir þetta er samt á fullu í forsætisráðuneytinu og frumvarp í þessu efni er komið langleiðina. Ég hafði gert mér vonir um að fljótlega eftir áramót, eftir að þing kæmi saman, gætum við lagt fram frumvarp um eitt atvinnuvegaráðuneyti. Enn er ég vongóð um að það frumvarp geti orðið að lögum á þessu vorþingi.

Vinstri grænir hafa ekkert sagt um að ekki eigi að stofna atvinnuvegaráðuneyti, aðeins áréttað að ekki megi draga úr vægi sjávarútvegsmála eða landbúnaðarmála ef stofnað verður eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það eru heldur engar hugmyndir um að gera slíkt. Þvert á móti (Gripið fram í.) er hugmyndin að efla þessar atvinnugreinar en við erum að vinna að hagræðingu og sameiningu í Stjórnarráðinu, bæði í ráðuneytunum og stofnununum, (Forseti hringir.) og ekki veitir af í þeirri klemmu og efnahagsþrengingum sem við erum í, ekki síst ríkissjóður.