138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

kynningarefni fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave.

[12:29]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Staðan er þannig að nú er utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin og ráðuneytið er búið að opna kynningarvef um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar á vefnum kosning.is. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á í máli sínu var lögð á það áhersla af hálfu allsherjarnefndar að útbúið yrði hlutlaust kynningarefni og að því höfum við unnið. Markmið vinnunnar er að útbúinn verði texti sem lýtur að staðreyndum byggðum á opinberum upplýsingum og að slíkt kynningarefni yrði útbúið þannig að auðvelt væri fyrir kjósandann að kynna sér það.

Að þessu sögðu verð ég líka að minna á að þjóðaratkvæðagreiðsla snýst um að leggja mál í dóm upplýstrar þjóðar. Það hefur farið fram mikil umræða og á eftir að fara fram mikil umræða víðs vegar í þjóðfélaginu. Það sem við höfum lagt aðaláherslu á í ráðuneytinu er að við berum ábyrgð á framkvæmd kosninganna og þar má ekki bera skugga á þannig að dómsmálaráðuneytið verður að gæta þess að taka ekki þátt í umræðunni með þeim hætti að skugga beri á framkvæmdina. Þess vegna höfum við miðað að því að hægt verði að útbúa þetta kynningarefni byggt á staðreyndum sem fram koma í opinberum gögnum. Við vonumst til að þetta sé hægt og við vonumst til að geta komið með einhvers konar kynningu á því hvernig við sjáum þetta fyrir okkur í byrjun næstu viku.