138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

stjórn Ríkisútvarpsins.

[12:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Rétt er það að Kvikmyndasjóður fékk 23% niðurskurð í fjárlögum ársins, en ég tek þó fram að það er ekki einstæður niðurskurður. Dæmi eru um liði í mínu ráðuneyti sem voru lækkaðir meira og ég hef haldið því til haga að það sama eigi við t.d. um liðinn Jöfnunarsjóður námsmanna sem lýtur sömu lögmálum að því leyti að hafa hækkað mikið á undanförnum árum og fá harðari niðurskurð núna af þeim sökum, og Íslensku óperuna sem fékk 20% niðurskurð.

Hvað varðar hins vegar Ríkisútvarpið sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni hefur það komið fram að Ríkisútvarpinu er úthlutað núna á fjárlögum 3.218 millj. kr. sem er 10% minna en í fyrra. Árið 2009 var því úthlutað 3.575 millj. kr. Af því fjármagni notaði Ríkisútvarpið á sínum tíma 175 millj. kr. til kaupa á efni af sjálfstæðum framleiðendum. Ég hef kallað eftir upplýsingum um þau efni, hvernig þau skiptust, og af þessum 175 millj. kr. fóru 108 millj. kr. til kaupa á titlum en afgangurinn fór í kaup og talsetningu á ýmiss konar efni, sérstaklega barnaefni.

Ég held að það sé rétt að við skoðum hvort þetta hlutfall eigi að vaxa. Auðvitað er rétt að í þeim samningi sem er í gildi milli menntamálaráðuneytis annars vegar og útvarpsins hins vegar um útvarp í almannaþjónustu er gert ráð fyrir að þetta hlutfall fari vaxandi.

Hins vegar tek ég líka fram að ekki hefur verið birt nein útfærsla á þeim niðurskurði sem hefur verið boðaður. Þau orð hafa verið látin falla að til standi að minnka innkaup á efni af sjálfstæðum framleiðendum en ekki liggur enn fyrir hversu mikil sú minnkun á að verða. Ég tel rétt að við förum vandlega yfir þetta mál og af þeim sökum hef ég óskað eftir fundi með nýrri stjórn Ríkisútvarpsins til að fara yfir nákvæmlega hvernig eigi að útfæra þessar niðurskurðarhugmyndir. Mín skoðun er sú að það sé mikilvægt að Ríkisútvarpið standi vel og myndarlega að því að kaupa efni af sjálfstæðum framleiðendum.