138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[13:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er ekki sérstaklega fjallað um innstæðutryggingar. Ég hef hins vegar mælt fyrir öðru frumvarpi sem gerir það og við getum í sjálfu sér rætt það einnig ef menn óska þess. Það er rétt að breytingar hafa verið gerðar á reglugerð Evrópusambandsins um innstæðutryggingar en þær snúa ekki sérstaklega að því efni sem hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði að umræðuefni, þ.e. ríkisábyrgð, en ýmsar aðrar breytingar eru gerðar, m.a. á fjárhæðum. Tryggð fjárhæð er hækkuð í 50.000 evrur og reyndar er í umræðunni að hækka hana enn í 100.000 evrur. Tillit er tekið til alls þessa í því frumvarpi sem ég lagði fram og mælti fyrir á þingi í desembermánuði sl.